Tölvuframleiðandinn Dell skilaði hagnaði upp á 372 milljónir dala, þegar horft er framhjá einskiptisliðum, á fyrsta fjórðungi ársins sem jafngildir 21 sents hagnaði á hlut. Þetta er töluvert undir væntingum sérfræðinga, en gert hafði verið ráð fyrir hagnaði upp á 34 sent á hlut. Hagnaður fyrirtækisins á fyrsta fjórðungi síðasta árs nam 761 milljón dala.

Velta fyrirtækisins á tímabilinu nam 14,1 milljarði dala, sem er töluvert yfir þeim 13,5 milljörðum sem spáð hafði verið, en undir veltunni á sama tíma í fyrra sem nam 14,4 milljörðum dala.

Tveir hópar fjárfesta berjast nú um Dell, einn undir forystu stofnandans Michael Dell og annar undir forystu fjárfestisins Carl Icahn. Báðir stefna þeir að því að afskrá fyrirtækið og endurskipuleggja það.