Hagnaður Deloitte samstæðunnar á rekstrarárinu frá júní 2011 til maí 2012 nam 208,7 milljónum króna, en var 300,8 milljónir króna árið á undan. Rekstrartekjur fyrirtækisins voru nær óbreyttar milli ára, eða 3.078,8 milljónir á nýliðnu ári og 3.077,9 milljónir árið á undan. Laun og launatengd gjöld jukust hins vegar um rúmar 100 milljónir og er það stærsta breytingin á rekstrarreikningnum milli ára. Rekstrarhagnaður Deloitte samstæðunnar var því 341 milljón í fyrra en var 413,9 milljónir árið á undan.

Deloitte greiddi 93 milljónir króna í tekjuskatt í fyrra, en greiddi 76,4 milljónir árið á undan. Stjórn félagsins leggur til að greiddar verði allt að 200 milljónir króna í arð til hluthafa fyrir síðasta ár, en árið á undan námu arðgreiðslur 300 milljónum króna.

Á efnahagsreikningi fyrirtækisins verða þær breytingar helstar milli ára að eignir dragast saman um tæpar 250 milljónir króna og verður sú breyting nær alfarið undir liðnum handbært fé. Það minnkaði úr 467 milljónum á árinu 2010-2011 í 211,3 milljónir í lok rekstrarársins 2011-2012. Á móti minnkar eigið fé um 90 milljónir og skammtímaskuldir lækka um tæpar 270 milljónir króna. Þá hækkuðu langtímalán um 120 milljónir milli ára.