Bandaríska flugfélagið Delta hagnaðist um 1,44 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi þessa árs og jókst hagnaður félagsins um 39% frá sama tímabili í fyrra. Leiðrétt fyrir einskiptisliðum nam hagnaður á fjórðungnum 2,35 dollurum á hlut en meðaltal greinigaraðila hafði gert ráð fyrir 2,28 dollara hagnaði á hlut samkvæmt frétt Reuters .

Tekjur félagsins á fjórðungnum námu 12,54 milljörðum dollara og jukust um 6,5% milli ára. Stjórnendur Delta segja að hærri meðalfargjöld og betri nýting væru helstu ástæður bættrar afkomu milli ára.  Í frétt Reuters er einnig tekið fram að það hjálpi félaginu að vera ekki með neinar Boeing 737 MAX vélar í flota sínum þar sem félgaið þurfi þar með ekki að takast á við þann vanda sem kyrrsetningin hefur ollið samkeppnisaðilum þess.

American Airlines greindi meðal annars frá því í gær að kyrrsetning MAX vélanna myndi verða til þess að hagnaður félagsins yrði 185 milljónum dollara lægri á öðrum fjórðungi vegna kyrrsetningarinnar. Félgaið þurfti að aflýsa um 7.800 flugferðum vegna kyrrsetningarinnar á fjóðrungnum.

Flugfélagið sem er það næst stærsta í heimi hækkaði einnig afkomuspá sína fyrir árið. Stjórnendur gera nú ráð fyrir að hagnaður á hlut verði á bilinu 6,75-7,25 dollara en spábilið hljóðaði áður upp á 6-7 dollara á hlut.   .