Hagnaður Disney helmingaðist milli ára á síðasta ársfjórðungi og nam 1,4 milljörðum dala, um 175 milljörðum króna. Afkoman var undir væntingum markaðsaðila, og hlutabréf félagsins féllu um 5% á eftirmarkaði í kjölfar tilkynningarinnar. BBC segir frá.

Félagið hefur gefið frá sér röð vinsælla kvikmynda nýlega, og tekjur þess jukust um þriðjung milli ára, úr 15 milljörðum dala í 20. Nýjasta Avengers myndin – Avengers: Endgame – tvöfaldaði heimsmetið þegar hún þénaði 1,2 milljarða dala umopnunarhelgina í lok apríl, en metið sem féll tilheyrði undanfara hennar árið áður, Avengers: Infinity War. Í dag nema heildartekjur Endgame hátt í 3 milljörðum dala.

Kostnaður jókst hinsvegar enn meira en tekjurnar. Félagið keypti réttinn að öllu sjónarpsefni 21st Century Fox fyrir 71 milljarð dala í mars, og stendur þessa dagana í ströngu við að koma upp eigin streymisveitu, Disney+, sem opnað verður fyrir í nóvember.

Forsvarsmenn félagsins segja kostnað við streymisveituna og aðra netþjónustu munu halda niðri hagnaði næstu árin, en ýmis önnur stórfyrirtæki vinna nú að því að koma á laggirnar eigin streymisveitum.