Hagnaður skemmtanarisans Walt Disney nam 2,48 milljörðum dala á öðrum ársfjórðungi þessa árs, en hagnaðurinn nam 2,25 milljörðum dala á sama tíma í fyrra. Þrátt fyrir aukninguna lækkaði gengi bréfa fyrirtækisins um 1% í gær vegna þess að afkoma fyrirtækisins var undir væntingum. Í frétt BBC kemur fram að þetta var í fyrsta sinn í átta fjórðunga sem afkoma Disney er undir væntingum.

Hagnaður af kvikmyndaframleiðslu jókst um 15% og nam 472 milljónum dala, einkum vegna velgengni Marvel ofurhetjumyndarinnar Avengers: Age of Ultron, en tekjur af myndinni hafa numið 450 milljónum dala á Bandaríkjamarkaði og 940 milljónum í öðrum löndum.

Disney keypti kvikmyndastúdíóið Marvel árið 2009 fyrir fjóra milljarða dala og þykja kaupin hafa heppnast afar vel.