Rekstrarhagnaður Domino‘s á Íslandi (EBIT) nam hálfri milljón punda á fyrri helmingi ársins – 85 milljónum króna sé miðað við gengi krónunnar gagnvart pundinu í lok tímabils – sem er helmingun milli ára. Þetta kemur fram í árshlutareikningi móðurfyrirtækisins , Domino‘s Pizza Group PLC.

Veltan nam 15,1 milljón punda eða 2,6 milljörðum króna og féll um 10% milli ára. Heimsfaraldurinn er í reikningnum sagður hafa haft mikil áhrif á reksturinn hér á landi, með því að draga úr eftirspurn og með almennum áhrifum á íslenskt hagkerfi, sem sé afar háð ferðamennsku. Samsteypan rekur 24 verslanir hér á landi, en aðeins 22 hafa verið opnar síðan faraldurinn braust út.

Í október síðastliðnum ákvað samsteypan að selja rekstur Domino‘s á Íslandi , í Noregi, í Svíþjóð og í Sviss. Af þeim fjórum skilaði aðeins íslenski reksturinn hagnaði á fyrri hluta ársins, en samanlagt tap eininganna fjögurra nam 1,2 milljarði.

Mestu tapaði norski reksturinn, rúmum 560 milljónum króna, en auk þess að vera eina rekstrareiningin af þessum fjórum sem skilaði hagnaði var veltan hæst á Íslandi.

Hagnaður samsteypunnar í heild nam 3,2 milljörðum króna á árshelmingnum eða 19 milljónum punda, og féll um 15% milli ára sé miðað við pund. Veltan nam 107 milljörðum króna eða 629 milljónum punda og jókst um 5,5% milli ára.