Afkoma Domino‘s á Íslandi versnaði á síðasta ári. Rekstrarhagnaður félagsins hér á landi (EBIT) lækkaði úr 4,1 milljón punda í 1,7 milljónir punda milli áranna 2018 og 2019 eða um sem nemur 59% milli ára. Í krónum talið lækkar rekstrarhagnaðurinn úr 565 milljónum króna í 323 milljónir króna eða um 43% milli áranna 2018 og 2019.

Þá lækkuðu sölutekjur félagsins úr 40,3 milljónum punda í 36,6 milljónir punda. Þetta kemur fram í uppgjöri Domino‘s á Bretlandi, Domino's Pizza Group plc, sem birt var í morgun.  Bent er á að í íslenskum krónum hafi salan dregist saman um 1,4% en 9,2% í pundum talið.

Helsta ástæðan fyrir lakari afkomu sé versnandi efnahagsástand, ásamt hærri launakostnaði og öðrum rekstrarkostnaði. Það megi að mestu skýra með lífskjarasamningunum sem skrifað var undir á síðasta ári. Ný heimasíða Domino‘s á Íslandi hafi stuðlað að aukinni sölu hjá félaginu.

Viðskiptavild lækkuð

Þá færði félagið niður viðskiptavild upp á 2,5 milljónir punda, um 413 milljónir króna vegna starfseminnar á Íslandi. Mat á viðskiptavild byggir á væntu sjóðsstreymi félagsins til framtíðar. Vegna lakari efnahagshrofa á Íslandi hafi verið viðskiptavild félagsins verið lækkuð.

Starfsemin hér á landi var auglýst til sölu í byrjun vetrar, sem og starfsemi félagsins í Sviss, og Svíþjóð. Félagði seldi starfsemi sína í Noregi til Birgis Bieltvedt og fleiri fjárfesta fyrr á þessu ári í skiptum fyrir hlut þeirra í starfsemi Domino‘s í Svíþjóð.

Sjá einnig: Birgir kaupir Domino‘s í Noregi

Domino‘s á Bretlandi keypti upphaflega hlut í Domino‘s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð árið 2016 af Birgi Bieltvedt og fleiri fjárfestum árið 2016. Félagið jók hlut sinn á Íslandi um 44,3% til viðbótar í byrjun árs 2018. Fyrir þann hlut greiddi félagið 3,7 milljarða króna eða 26,8 milljónir punda. Domino's Pizza Group 2,7 milljónir punda fyrir 4,7% hlut í Pizza Pizza ehf, sérleyfishafa Domino‘s á Íslandi í ágúst 2019 og eignaðist þar með félagið að fullu. Kaupin áttu sér stað eftir að seljendur nýttu sér söluréttarákvæði í samningi.

Afkoma samstæðunnar versnaði úr 43,9 milljóna punda hagnaði í 2,8 miljóna punda hagnað. Munaði þar mestu um versnandi afkomu Domino‘s í Noregi, Svíþjóð og Sviss, en afkoman á Bretlandi og Írlandi er svo til óbreytt milli ára.

Sjá einnig: Íslendingar heimsmeistarar í Domino's áti

Framan af virtust Bretarnir ánægðir með kaupin hér á landi. Segja má að þeir hafi verið vantrúaðir á hve mikið Íslendingar borðuðu af Domino's pítsum. Í uppgjöri félagsins fyrir ári kom fram að hvergi væri meiri sala á hvert útibú en á Íslandi og félagið á Íslandi væri að „brjóta“ hvert „glerþakið“ á fætur öðru með vaxandi sölu.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um rekstrarhagnað Domino's á Íslandi í krónum.