*

fimmtudagur, 9. júlí 2020
Innlent 30. apríl 2020 09:04

Hagnaður dróst saman um 50%

Össur hagnaðist um 7 milljónir dollara á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 14 milljóna hagnað á sama tíma í fyrra.

Ritstjórn
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar.
Eva Björk Ægisdóttir

Heimsfaraldurinn hafði áhrif á rekstur Össurar á fyrsta ársfjórðungi. Fyrirtækið seldi fyrir 154 milljónir dollara (22,7 milljörðum króna)  samanborið við 160 milljónir á sama ársfjórðungi í fyrra. Sala dróst saman um 2% í staðbundinni mynt og innri vöxtur var neikvæður um 5%. Dróst sala á stoðtækjum saman um 4% og samdráttur í sölu á spelkum og stuðningsvörum  nam 7%.

Sala dróst saman í mars á þeim mörkuðum sem ráðstafanir voru gerðar til takmarkanna á útbreiðslu COVID-19 heimsfaraldursins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Ennfremur kemur fram að fjárhagsætlun fyrir árið hafi verið afturkölluð þann 17. mars vegna óvissunnar.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) á fyrsta ársfjórðungi nam 22 milljónum Bandaríkjadala (3 milljörðum íslenskra króna) eða 14% af sölu. Til samanburðar nam EBITDA 30 milljónum dollara á sama tímabili í fyrra. Í tilkynningunni segir að EBITDA framlegð hafi lækkað vegna lægri sölu í fjórðungnum og að félagið hafi gert kveðnar ráðstafanir til að draga úr kostnaði til skamms tíma.

Hagnaður ársins nam 7 milljónum Bandaríkjadala (1 milljarði íslenskra króna) og var 5% af veltu. Er þetta töluverður samdráttur því á fyrsta ársfjórðungi í fyrra hagnaðist félagið um 14 milljónir dollara.

Fresta kaupum College Park

Össur tryggði sér aukna fjármögnun upp á 225 milljónir dollara (29 milljarða íslenskra króna) í mars og stóðu sjóðir félagsins auk ódreginna lánalína í 304 milljónum dollara (39 milljarðar íslenskra króna) í lok fjórðungsins.

Össur keypti 1,295,450 eigin bréf í gegnum endurkaupaáætlun félagsins fyrir 9 milljónir Bandaríkjadala. Endurkaupum á eigin bréfum hefur verið hætt tímabundið á meðan óvissa ríkir vegna heimsfaraldursins. Einnig hefur félagið gert samkomulag um að fresta endanlegum kaupum á stoðtækjaframleiðandanum College Park. Ráðgerir félagið að ganga frá kaupunum á næstu þremur mánuðum.

Yfirlýsing frá Jóni Sigurðssyni, forstjóra Össurar, vegna uppgjörsins:

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á rekstur Össurar og höfum við haft öryggi og heilbrigði starfsmanna og viðskiptavina í fyrirrúmi. Núverandi eftirspurn er mætt en starfsmenn framleiðslunnar vinna á vaktaskiptum og flestir skrifstofu- og sölustarfsmenn starfa að heiman.

Faraldurinn hefur tímabundið neikvæð áhrif á eftirspurn eftir stoðtækjum og spelkum & stuðningsvörum  vegna takmarkanna sem sett hafa verið á sumum mörkuðum til að hamla útbreiðslu á faraldrinum. Rekstrarniðurstöður félagsins hafa þar af leiðandi orðið fyrir neikvæðum áhrifum og enn er óljóst hversu lengi áhrifin munu vera viðvarandi.

Söluvöxtur á fyrstu tveimur mánuðum ársins voru í takt við væntingar en sala byrjaði að verða fyrir neikvæðum áhrifum sökum faraldursins í mars. Við sjáum einnig töluverð áhrif á sölu það sem af er apríl en við erum þegar farin að sjá merki um bata í nokkrum af helstu mörkuðum okkar í Evrópu og sala í Kína var í apríl aftur á pari við 2019.

Ekki er gert ráð fyrir að langtímahorfur í stoðtækja- og spelku- & stuðningsmarkaðinum breytist en þó má ætla að áhrifin af faraldrinum munu leiða til uppsafnaðrar eftirspurnar.

Mikil óvissa ríkir enn um horfur fyrir árið 2020 og getum við því ekki veitt uppfærða fjárhagsáætlun fyrir árið á þessum tímapunkti. Ég undirstrika þó að við erum fjárhagslega vel í stakk búin til að takast á við þessa óvissutíma. Ég vil þakka öllum starfsmönnum og viðskiptavinum félagsins fyrir sveigjanleika, jákvæðan teymisanda og framlag þeirra á þessum fordæmalausu tímum."

Stikkorð: Össur