Stóru fasteignafélögin þrjú, Reitir, Reginn og Eik, högnuðust um tæplega 2,8 milljarða króna á fyrri helmingi þessa árs. Hagnaður félagana þriggja nam 5,8 milljörðum á sama tímabili í fyrra og dróst því saman um 52% á milli ára. Annar ársfjórðungur þessa árs skýrir muninn á milli ára og rúmlega það en félögin skiluðu samtals 993 milljóna króna tapi á fjórðungnum á meðan þau högnuðust um rúmlega 2,9 milljarða á sama tíma í fyrra. Neikvæður viðsnúningur milli ársfjórðunga nam því rúmlega 3,9 milljörðum króna.

Reitir högnuðust um 332 milljónir króna á fyrri helmingi ársins og dróst hagnaður saman um 87,7% frá sama tíma í fyrra. Þá tapaði félagið 876 milljónum á öðrum ársfjórðungi samanborið við 1.217 milljóna hagnað árið áður. Reginn hagnaðist um 1.492 milljónir á fyrri helmingi ársins en hagnaður dróst saman um 1,3% en félagið hagnaðist um 32 milljónir á öðrum ársfjórðungi sem var 96,4% lægri hagnaður en á sama tíma í fyrra. Hagnaður Eikar á fyrri helmingi ársins nam 954 milljónum króna og dróst saman um 40,6% milli ára. Félagið tapaði 149 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi en skilaði 839 milljóna hagnaði á sama tíma í fyrra.

Mikil hækkun fasteignagjalda

Verri afkoma félaganna á öðrum ársfjórðungi skýrist að mestu leyti af neikvæðum viðsnúningi í matsbreytingum félaganna á milli ára. Á öðrum ársfjórðungi þessa árs var liðurinn matsbreytingar og afskriftir í heildina neikvæður um 2.447 milljónir en var jákvæður um 2.620 milljónir á sama tímabili í fyrra. Samtals nemur viðsnúningurinn rúmlega 5 milljörðum króna. Mestur var munurinn hjá Reitum þar sem 2,7 milljarða neikvæður viðsnúningur varð á milli ára. Ástæðu viðsnúningsins má að mestu leyti rekja til hækkunar á fasteignamati Þjóðskrár fyrir árið 2019, sem leiðir til þess að fasteignagjöld félaganna hækka. Fasteignamat Reita hækkaði um 17% milli ára, um tæp 17% hjá Eik og um 13% hjá Reginn.

Auknar tekjur og betri grunnrekstur

Þrátt fyrir að hagnaður hafi dregist saman á fyrri helmingi þá jukust tekjur og rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir (NOI) milli ára. Rekstrartekjur námu samtals 13,3 milljörðum á fyrri helmingi ársins og jukust um 8,6% milli ára. Þá jukust leigutekjur um 8,7% milli ára og námu 12,4 milljörðum. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam samtals 8.653 milljónum króna á fyrri helmingi ársins og jókst um 7,5% frá sama tímabili í fyrra. Mest var aukningin hjá Regin eða 14,6%.

ður fyrir afskriftir og matsbreytingu á öðrum ársfjórðungi nam tæplega 4,4 milljörðum og jókst um 6,5% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 1.300 milljónum á öðrum ársfjórðungi en meðaltal afkomuspáa greiningaraðila sem Viðskiptablaðið komst yfir gerði ráð fyrir 1.270 milljónum. Hjá Regin nam stærðin 1.214 milljónum sem var í takt við meðaltal greiningaraðila sem var 1.219 milljónir. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir var svo 1.873 milljónir hjá Reitum en greiningaraðilar höfðu gert ráð fyrir 1.865 milljónum að meðaltali.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .