Breska flugfélagið EasyJet skilaði 581 milljón punda hagnaði fyrir skatta á tólf mánaða tímabili fram að október síðastliðnum. Er það 21,5% meira en á síðasta ári, þegar það skilaði 478 milljóna punda hagnaði. BBC News greinir frá þessu.

Á tímabilinu flutti flugfélagið 64,8 milljónir farþega sem er 7% meira en á síðasta ári. EasyJet hefur 226 flugvélar á sínum snærum og jókst sætafjöldinn jafnframt um 5,1% milli ára. Sætanýting var 91%.

Í uppgjöri sínu segist flugfélagið búast við því að lækkun heimsmarkaðsverðs á olíu muni lækka kostnað í rekstri þess um nær 22 milljónir punda á næsta hálfa ári.