*

mánudagur, 21. september 2020
Erlent 21. maí 2020 08:16

Hagnaður Eaton Vance umfram væntingar

Aldargamalt fjárfestingarfélag hagnaðist um andvirði ríflega 10 milljarða dala á einum ársfjórðungi. Bréfin lækkað um fjórðung.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Eitt elsta fjárfestingarfélag Bandaríkjanna, Eaton Vance sem rekur sögu sína aftur til ársins 1924, hagnaðist um 72,1 milljón Bandaríkjadali, eða sem nemur 10,3 milljörðum íslenskra króna, á öðrum ársfjórðungi reikningsársins 2020, sem lauk 30. apríl síðastliðinn.

Eaton Vance hefur látið töluvert til sín taka á íslenskum hlutabréfamarkaði síðustu ár en dregið mikið úr umsvifum sínum síðustu misseri. Hagnaðurinn dróst saman um ríflega 29,7% frá sama tíma fyrir ári þegar hann nam 101,8 milljörðum króna. Hagnaður á hlut fór í 0,80 dali, sem var 12,68% umfram væntingar greinenda um 0,71 dali á hlut. Á fyrsta ársfjórðungi ársins nam hagnaðurinn 0,85 dölum á hlut.

Heildareignir sem Eaton Vance var með í stýringu námu 469,9 milljörðum dala í lok ársfjórðungsins, sem er 1% lækkun frá sama tíma ári fyrr. Hins vegar var það lækkun um 10% frá 518,2 milljörðum dala sem félagið var með í stýringu um áramótin.

Hlutabréf í félaginu hafa lækkað um rétt um fjórðung síðan í ársbyrjun, meðan S&P 500 vísitalan hefur lækkað um 9,5%. Gengi bréfa félagsins lækkaði um 2,91% á mörkuðum í gær, en uppgjörið var birt þá fyrir opnun markaða.