*

þriðjudagur, 15. júní 2021
Innlent 27. júní 2020 12:32

Hagnaður eftir skatta lækkar um 17%

Skattspor Bláa lónsins jókst um 34% milli ára og nam 5,8 milljörðum króna á síðasta ári.

Ritstjórn

Hagnaður Bláa lónsins eftir skatta lækkaði um 17% úr 26,4 milljónum evra árið 2018 í 21,9 milljónir á síðasta ári. EBITDA félagsins nam 34,3 milljónum evra í fyrra samanborið 39,6 milljónir árið áður. Skattspor félagsins jókst um 34% milli ára og nam 5,8 milljörðum króna á síðasta ári samanborið við 5 milljarða árið áður.

Rekstrartekjur Bláa lónsins á síðasta ári námu 125 milljónum evra, eða um 17,1 milljarði íslenskra króna miðað við meðalgengi ISK/EUR árið 2019, sem er um 2% hærra en árið 2018 þegar þær voru 122,6 milljónir evra. Rekstrargjöld voru 90,6 milljónir evra og hækkuðu þau um 7,5 milljónir frá fyrra ári. Meðalfjöldi starfsmanna á síðasta ári var 726 samanborið við 663 árið 2018. 

Handbært fé stóð í 25,6 milljónum evra í árslok 2019 og jókst um 19,1 milljón frá fyrra ári. Meginástæða hækkunarinnar má rekja til nýs 40 milljóna evra langtímaláns til fimm ára. Handbært fé frá rekstri nam 23,8 milljónum á árinu samanborið við 36,8 milljónir árið áður og lækkaði því um 13 milljónir milli ára. 

Eignir Bláa lónsins námu 183,5 milljónum evra í lok árs 2019 og hækkuðu um 26 milljónir frá árinu áður. Eigið fé félagsins lækkaði um 9,4% milli ára og stóð í 79,5 milljónum evra. Skuldir félagsins voru um 104 milljónir evra og því nam eiginfjárhlutfall þess 43,3% í árslok 2019 en var 56% árið áður. 

Í fréttatilkynningu Bláa lónsins segir að afkoma ársins 2019 hafi verið góð en ljóst er að neikvæð áhrif heimsfaraldurins verða gríðarleg á rekstur félagsins og búist er við verulegu rekstrartapi á þessu ári. 

Þegar hefur verið gripið til umfangsmikilla aðgerða til að aðlaga starfsemi félagsins en það þurfti að loka öllum rekstrareiningum í tæpa þrjá mánuði. Í ljósi alvarlegrar stöðu og óvissu vegna ársins 2020 verður ekki greiddur út arður til hluthafa vegna ársins 2019.

Grímur Sæmundsen er forstjóri Bláa lónsins.

Stikkorð: Bláa lónið Grímur Sæmundsen