Hagnaður fasteignafélagsins Eikar nam rétt rúmum 203 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi. Þetta er talsverður rekstrarbati frá í fyrra þegar hagnaður félagsins nam rétt rúmum 127 milljónum króna. Þetta jafngildir því að hagnaðurinn hafi aukist um 60% frá í fyrra.

Fram kemur í uppgjöri Eikar að afkomubatinn liggi í því að ekki var reiknuð matsbreyting fjárfestingaeigna fyrir fyrstu þrjá mánuði síðasta árs auk þess sem fjármagnsgjöld lækkuðu á þessu ári vegna endurfjármögnunar fasteignafélagsins sem hófst í maí í fyrra og lauk í október.

Fram kemur í uppgjöri Eikar að áhrif endurfjármögnunarinnar komi best fram ef borinn er saman hagnaður tímabilanna fyrir matsbreytingu fjárfestingaeigna, verðbætur og skatta, þá kemur í ljós að sá hagnaður nam 169 milljónum króna á þessu ári en 83 milljónum króna í fyrra.

Uppgjörið Eikar nú er birt í tengslum við ákvörðun stjórnar um að auka hlutafé félagsins með útgáfu nýrra hluta.  Alls verða seldir hlutir fyrir 750 milljón krónur að markaðsvirði.