Hagnaður Eikar fasteignafélags nam 839 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi ársins 2017, samanborið við 189 milljónir á sama tímabili í fyrra. Leigutekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi þessa árs námu 1.575 milljónir króna og jukust leigutekjurnar á milli ára en á sama tíma í fyrra námu 1.399 milljónir króna. Rekstrarkostnaður félagsins nam 632 milljónum króna.

NOI hlutfall Eikar á öðrum ársfjórðungi var 76% og eykst það lítillega milli ára. Heildareignir félagsins námu 88.037 milljónum króna í lok tímabilsins. Eigið fé Eikar nam 27.047 milljónir króna í lok júní 2017 og var eiginfjárhlutfall 30,7%. Heildarskuldir félagsins námu 60.990 milljónum króna og þar af voru vaxtaberandi skuldir 54.392 milljónir króna.

Tekjur jukust á fyrsta árshelmingi

Á fyrstu sex mánuðum ársins var rekstur félagsins í takt við væntingar stjórnenda. Rekstrartekjur félagsins á tímabilinu námu 3.628 milljónir króna og aukast um 14,8% á milli ára. Þar af voru leigutekjur 3.039 milljónir króna. Heildarhagnaður tímabilsins nam 1.606 milljónum króna.

Eik fasteignafélag sinnir rekstri og útleigu á atvinnuhúsnæði. Fjöldi eigna félagsins er yfir 100 og telja þær samtals tæpa 300 þúsund útleigufermetra. Stærsti hluti fasteignasafns Eikar er skrifstofuhúsnæði eða 45%. Næst koma verslunarhúsnæði 26%, hótel 12%, lagerhúsnæði 10% og veitingahúsnæði 4%. Stærstu leigutakar Eikar eru Húsasmiðjan, Fasteignir ríkissjóðs, Rúmfatalagerinn, Flugleiðahótel, Landsbankinn, Síminn, Deloitte, Míla, Vátryggingafélag Íslands og Fjarskipti (Vodafone).