Hagnaður fasteignafélagsins Eikar jókst um 4% á milli ára en hann nam tæplega 3,8 milljörðum fyrir árið 2017 samanborið við rúmlega 3,6 milljarða árið 2016.

Rekstrartekjur félagsins jukust einnig milli ára en þær námu 7,6 milljörðum króna árið 2017. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir námu rétt tæpum 5 milljörðum. Hrein fjármagnsgjöld námu tæpum 3,3 milljörðum.

Heildareignir félagsins námu 89 milljörðum krónum og jukust um rétt rúma 12 milljarða milli ára. Eigið fé félagsins nam rúmum 29 milljörðum og eiginfjárhlutfallið því um 32,7%.

Handbært fé félagsins dróst saman um 427 milljónir á árinu en það var 1.481 milljón króna í lok ársins samanborið við 1.908 milljónir í lok árs 2016. Handbært fé frá rekstri nam 2.617 milljónum króna, fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 6.626 milljónir en fjármögnunarhreyfingar jákvæðar um 3.582 milljónir króna.