*

mánudagur, 11. nóvember 2019
Innlent 8. maí 2019 17:00

Hagnaður Eikar helmingast milli ára

Eik fasteignafélag hagnaðist um ríflega hálfan milljarð fyrstu þrjá mánuði ársins eða helmingi minna en fyrir ári.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson er forstjóri Eikar fasteignafélags.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eikar fasteignafélags á fyrstu þrem mánuðum ársins nam 560 milljónum króna, sem er nánast akkúrat helmingun frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 1,1 milljarði króna. Hagnaður félagsins fyrir skatta lækkaði einnig um rétt rúmlega 49%, eða úr tæplega 1,4 milljarði í tæplega 700 milljónir.

Rekstrartekjur félagsins jukust þó um 7,1% milli ára og námu 2.084 milljónum króna, þar af voru leigutekjurnar 1.784 milljónir króna. Rekstrarkostnaður félagsins jókst á sama tíma um 9,8% á milli ára, úr 711 milljónum í 781 milljón.

Rekstrarhagnaður félagsins fyrir matsbreytingu nam 1,3 milljörðum króna, sem er aukning frá fyrra ári þegar hann nam rúmlega 1,2 milljörðum. Matsbreytingin lækkaði mikið milli ára, úr 1.058 milljónum í 323 milljónir króna.

Handbært fé frá rekstri félagsins nam 1.029 milljónum króna, en bókfært virði fjárfestingareigna félagsins nemur tæplega 92,9 milljörðum króna. Bókfært virði eigna félagsins ætlaðar til eigin nota nam aftur á móti rúmlega 3,7 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfallið nam 30,5%, en svokallað NOI hlutfall, það er rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum nam 72,2% sem er lækkun frá 73,4% fyrstu þrjá mánuði ársins í fyrra.

Eigið fé félagsins nam 30,4 milljörðum króna, en heildarskuldirnar námu 69,3 milljörðum þann 31. mars síðastliðinn. Þar af voru vaxtaberandi skuldir 58,3 milljarðar og tekjuskattsskuldbindingin 6,6 milljarðar. Fasteignir innan samstæðunnar nema rúmlega 100 talsins, og telja tæplega 310 þúsund fermetra til útleigu, en félagið er með á fimmta hundrað leigutaka. Félagið samþykkti rétt rúmlega milljarðs króna arðgreiðslu á aðalfundi í apríl sem greiddur var út 30. apríl síðastliðinn.