*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 28. október 2020 17:49

Hagnaður Eikar lækkar um 40%

Eik fasteignafélag hagnaðist um 384 milljónir á þriðja ársfjórðungi. Fór úr 2,1 milljarða hagnaði í 209 milljóna tap fyrstu 9 mánuðina.

Ritstjórn
Garðar Hannes Friðjónsson er forstjóri Eikar fasteignafélags.
Haraldur Guðjónsson

Hagnaður Eikar fasteignafélags lækkaði um 40,6% milli ára á þriðja ársfjórðungi, úr 646 milljónum króna fyrir ári í 384 milljónir króna nú. Fasteignir innan samstæðu Eikar eru rúmlega 100 talsins og telja rúmlega 310 þúsund útleigufermetra í rúmlega 600 leigueiningum. Heildarfjöldi leigutaka er yfir 400.

Hagnaðurinn nú vegur samt ekki upp tap fyrstu níu mánaða ársins, sem nú stendur í 209 milljónum króna, en á sama tíma fyrir ári var hagnaðurinn 2.142 milljónir króna. Tekjur félagsins drógust saman um 7,3%, úr ríflega 2,2 milljörðum króna í tæplega 2,1 milljarð á þriðja ársfjórðungi, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 8,9%, úr 718 milljónum króna í 654 milljónir króna.

EBITDA hagnaður Eikar dróst saman um 15,2% milli ára á tímabilinu, úr 1,5 milljörðum króna í tæplega 1,3 milljarða króna, en rekstrarhagnaðurinn (EBIT) dróst saman um 3,7%, úr 1.666 milljónum króna í 1.604 milljónir króna.

Færðu niður viðskiptakröfur um 310 milljónir

Virðisrýrnun viðskiptakrafna félagsins nam 135 milljónum á tímabilinu, sem er mikil aukning frá 5 milljónum fyrir þriðja ársfjórðung í fyrra, en virðisrýrnunin nemur 316 milljónum fyrir fyrstu níu mánuði ársins en það nam 22 milljónum á sama tímabili fyrir ári.

Segir félagið að áhrif kórónuveirufaraldursins megi sjá í því að staða viðskiptakrafna hefur hækkað um 160 milljónir króna frá áramótum og nam niðurfærsla viðskiptakrafna 310 milljónum króna á sama tímabili. Endanlegar afskriftir námu 20 milljónum króna og varúðarafskriftir á viðskiptakröfum námu 290 milljónum króna.

Ríflega 2 milljarða handbært fé frá rekstri

Eigið fé félagsins dróst saman um 0,8% fyrstu níu mánuði ársins, í 32,3 milljarða króna, meðan skuldirnar jukust um 2,8%, í 72 milljarða. Þar með jukust eignirnar um 1,6%, í 104,2 milljarða króna en eiginfjárhlutfallið lækkaði eilítið eða úr 31,7% í 31,0%.

Félagið segir jafnframt að lausafjárstaða þess sé sterk, en í lok september hafi handbært fé félagsins numið 2,7 milljörðum króna, en handbært fé frá rekstri var 2.057 milljónir króna fyrstu níu mánuði ársins.

Félagið hafi dregið á 1,4 milljarða króna bankafjármögnun, endurkaupaáætlun stytt og engin arðgreiðsla greidd út fyrir síðasta ár en auk þess eigi félagið ódregna lánalínu að fjárhæð 800 milljónir króna og óveðsettar eignir að fjárhæð tæplega 4,5 milljarða króna.

Neikvæður viðsnúningur milli ára

Eins og áður segir hefur orðið alger viðsnúningur í rekstri félagsins fyrstu níu mánuði ársins, úr ríflega 2,1 milljarða hagnaði í 209 milljóna króna tap, en inn í það kemur nú 190 milljóna króna neikvætt endurmat fasteigna og 37 milljónir í plús af tekjuskatti af endurmatinu.

Tekjurnar fyrir fyrstu níu mánuði ársins drógust saman um 3,4%, úr um 6,5 milljörðum í tæplega 6,3 milljarða króna, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 4,2%, úr 4,2 milljörðum í 3,8 milljarða króna.

Svokallað NOI hlutfall þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum, nam 67,5% á fyrstu níu mánuðum ársins 2020 samanborið við 74,2% fyrir sama tímabil 2019.