Samkvæmt nýjasta árshlutauppgjöri Eimskips, hagnaðist félagið um 8,8 milljónir evra á fjórðungnum eftir skatta. Upphæðin jafngildir um 1,16 milljörðum króna og hefur hagnaðurinn þar með aukist um 58,7% milli ára.

Rekstrartekjur námu 126,1 milljón evra og drógust þær saman um 0,5 milljónir evra eða um 0,4%. EBITDA félagsins nam 16,2 milljónum evra samanborið við 13,3 milljónir evra á sama tímabili í fyrra. EBITDA hefur þannig aukist um 21,6% milli ára.

Flutt magn í áætlunarsiglingum jókst um 9,1% og tekjur hækkuðu um 4,9 milljónir evra. Flutningsmagn í flutningsmiðlun dróst saman um 1,2% og tekjur lækkuðu um 5,4 milljónir evra vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun.

Eiginfjárhlutfall var 62,0% og nettóskuldir námu 31,4 milljónum evra í lok júní. Afkomuspá ársins 2016 helst óbreytt, en miðað er við að EBITDA verði á bilinu 49 til 53 milljónir evra.