Eimskipafélag Íslands hagnaðist um 6,2 milljónir evra á þriðja ársfjórðungi 2020, jafnvirði 1.000 milljóna króna. Afkoman dróst saman um 14% milli ára. Hagnaður fyrir fjármagnsliði, skatta og afskriftir (EBITDA) nam 21,4 milljónum evra, andvirði 3.463 milljóna króna, á fjórðungnum og jókst um 5,4% milli ára.

Tekjur Eimskips námu 170 milljónum evra á fjórðungnum og drógust saman um 1,2% milli ára. Eimskip segir að lægri tekjur megi rekja til veikingar krónunnar og áhrifa þess á starfsemi á Íslandi.

Kostnaður nam 149 milljónum evra og dróst saman um tvö prósentustig sem skýrist að mestu af hagræðingaraðgerðum. Launakostnaður dróst saman um 6,3 milljónir evra milli ára, rúmlega þúsund milljónir króna, eða um fimmtung. Þar af lækkuðu laun um 2,5 milljónir evra vegna veikingar krónunnar.

Neikvæðra áhrifa vegna COVID-19 að fjárhæð 1,2 milljónum evra gætti á háannatíma í ferðaþjónustutengdu dótturfélögunum Sæferðum og Gáru.

Handbært fé frá rekstri jókst um 14 milljón evra og nam 15,5 milljónum evra í lok tímabilsins samanborið við 1,5 milljónir evra fyrir sama tímabil síðasta árs. Lausafjárstaða félagsins er sögð vera góð og innborganir að fjárhæð 6,5 milljónir evra voru greiddar inn á veltufjármögnunarlínu á fjórðungnum.

Eimskip hagnaðist um 3,7 milljónir evra á fyrstu níu mánuðum ársins og dróst saman um helming milli ára. Tekjur lækkuðu um 2,3% á fyrstu níu mánuðum ársins milli ára. Kostnaður dróst saman um tvö prósent.

Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri:

„Ég er ánægður með niðurstöðu þriðja ársfjórðungs og áframhaldandi bata í rekstri félagsins. Það var jákvæður viðsnúningur í magni á fjórðungnum og hagræðingaraðgerðir síðustu missera eru að skila sér í lægri kostnaði og bættri arðsemi. Magn í útflutningi frá Íslandi og Færeyjum var sterkt á fjórðungnum sem og í frystiflutningsmiðlun á alþjóðavettvangi.

Enn fremur erum við að uppskera á hagkvæmara gámasiglingakerfi sem við innleiddum fyrr á árinu sem hluta af mótvægisaðgerðum vegna COVID-19 og við erum farin að sjá ávinning af samstarfi okkar við Royal Arctic Line. Hins vegar finnum við einnig fyrir neikvæðum áhrifum faraldursins t.d. á umboðsþjónustu skemmtiferðaskipa og á ferjurekstur á Íslandi en háannatími þeirrar starfsemi er á þriðja ársfjórðungi.

Ég er afar þakklátur fyrir samviskusemi og mikilvægt framlag fjölbreytts hóps starfsmanna sem hjá félaginu starfar um allan heim. Þeim hefur tekist að halda flutningakeðjunni okkar gangandi og haldið góðri þjónustu til viðskiptavina á þessum fordæmalausu tímum.“