Hagnaður Eimskips á þriðja ársfjórðungi nam 9,4 milljónum evra, eða sem nemur 1.140 milljónum íslenskra króna, sem er 10,7% meiri hagnaður en á sama tímabili í fyrra þegar hann nam 8,5 milljónum evra.

Ef horft er til fyrstu 9 mánuða ársins nam hagnaðurinn 20 milljónum evra, en á sama tíma árið 2015 var hann 15,5 milljónir evra.

Rekstrartekjur félagsins námu 134,1 milljón evra, sem er aukning um 4,3 milljónir eða 3,4%, og EBITDA félagsins nam 17,8 milljónum evra, sem er aukning um 1,4 milljónir evra, eða 8,6% milli ára.

Eiginfjárhlutfall Eimskips nam 63,3% og nettóskuldir þess námu 34,8 milljónum evra í lok september. Hefur félagið jafnframt breytt afskomuspá ársins í EBITDA á bilinu 52 til 55 milljónir evra.

Flutningamagn frá Kína að komast á strik á ný

„Flutningsmagn í áætlunarsiglingum félagsins á Norður-Atlantshafi jókst um 6,8% samanborið við þriðja ársfjórðung síðasta árs og tekjur hækkuðu um 5,7 milljónir evra eða 6,1%. Góður vöxtur var í flutningum tengdum Íslandi, Færeyjum og Noregi,“ segir Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips í fréttatilkynningu.

„Magn í flutningsmiðlun jókst um 4,7% á fjórðungnum á meðan flutningsmiðlunartekjur drógust saman um 1,4 milljónir evra eða 3,8% vegna áhrifa af lækkandi verðum í alþjóðlegri flutningsmiðlun og samdrætti í flutningsmagni frá Kína sem er smám saman að ná sér á strik aftur.

Hagnaður fjórðungsins nam 9,4 milljónum evra og hækkaði um 10,7%. Félagið heldur áfram að sýna góðan árangur og þetta er besti þriðji ársfjórðungur í rekstri félagsins frá árinu 2009 hvað varðar rekstrartekjur, EBITDA, EBIT og hagnað.“

Færir út kvíarnar til Noregs og Grænlands

Gylfi ræddi einnig um kaup félagsins á norska skipafélaginu Nor Lines og samstarfssamningi þess við grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line.

„Í byrjun nóvember tilkynnti Eimskip undirritun samnings um kaup á norska flutningafyrirtækinu Nor Lines. Áætluð ársvelta Nor Lines nemur um 110 milljónum evra, eða um 13,6 milljörðum króna, og er fjöldi starfsmanna um 200 talsins.

Fyrirtækið rekur nú víðtækt þjónustunet í Noregi og annast flutninga á sjó og landi. Með fyrirvara um samþykki norskra samkeppnisyfirvalda er gert ráð fyrir að endanleg niðurstaða um kaupin liggi fyrir á fyrsta ársfjórðungi 2017,“ segir Gylfi.

„Eimskip og grænlenska skipafélagið Royal Arctic Line undirrituðu í maí viljayfirlýsingu um að móta og meta möguleika á samstarfi um smíði á þremur gámaskipum og um að deila afkastagetu þeirra.

Með mögulegu samstarfi mun Grænland tengjast alþjóðlegum siglingakerfum. Vinnan hefur gengið vel á undanförnum vikum og mánuðum og markmiðið er að samkomulag um samstarfið liggi fyrir í desember.“