Hagnaður Eimskips eftir skatta nam 5,7 milljónum evra á þriðja ársfjórðungi í ár samanborið við tæplega 5,1 milljón evra hagnað á sama tímabili í fyrra. Hagnaður jókst milli tímabila um 13,4% en bæði rekstrartekjur og rekstrargjöld jukust töluvert.

Árshlutauppgjörið var birt í síðustu viku og er það hið fyrsta sem birtist eftir skráningu félagsins á markað.

Greining Íslandsbanka fjallaði um uppgjörið og benti á að flutningsmagn í áætlunarkerfum félagsins jókst um 6,3% á fyrstu 9 mánuðum ársins samanborið við sama tímabil árið áður. Rekja má 72% af tekjum félagsins til þessa rekstrarþáttar. Magn í flutningsmiðlun dróst hins vegar saman um 5,4% sem skýrist einkum af minni útflutningi frá Asíu. Flutningsmiðlunin stendur fyrir 28% af tekjumyndun félagsins.

Greining Íslandsbanka segir skuldastöðu félagsins mjög viðráðanlega og reiknast til að miðað við EBITDA-framlegð á fyrstu níu mánuðum ársins gæti félagið greitt upp vaxtaberandi skuldir á um 42 vikum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.