Staðan á olíumarkaðinum hefur haft umtalsverð áhrif á afkomu olíuframleiðendanna og er ExxonMobil ekki undanskilið.

Samkvæmt uppgjöri félagsins féll hagnaður Exxon um 40% á fjórða ársfjórðungi 2016.  Darren Woods, sem tók nýverið við af Rex Tillerson, segir lágt olíuverð vera vandamálið.

Þrátt fyrir að síðustu þrír mánuðir ársins hafi ekki verið blómlegir, gæti þó verið ljós í myrkrinu. Tekjur fyrirtækisins hækkuðu til að mynda um 2% og námi 61 milljarði dala. Greiningaraðilar á Wall Street höfðu þá spáð betri tölum.

Olíuverð hefur þá einnig verið að hækka, en ákvarðanir OPEC hafa spilað þar inn í. Exxon hefur einnig verið að endurfjárfesta og gera má ráð fyrir því að félagið muni njóta góðs af tengslum sínum við Washington, nú þegar fyrrverandi forstjóri fyrirtækisins er orðinn utanríkisráðherra.