Arctica Finance hf. skilaði 298 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 116,3 milljóna króna hagnað árið 2012. Tekjur félagsins jukust um rúmar 320 milljónir króna og námu 821,4 milljónum í fyrra. Vega þóknanatekjur þar langþyngst, en þær námu 787 milljónum í fyrra, samanborið við 472,1 milljón árið 2012.

Rekstrarkostnaður jókst um 82 milljónir og nam 436,5 milljónum króna. Eignir félagsins námu 709,4 milljónum um síðustu áramót, skuldir námu 171,1 milljón og eigið fé var því 538,3 milljónir. Eiginfjárhlutfall Arctica var í ársbyrjun 81,5%. Laun og launatengd gjöld hjá Arctica námu í fyrra 209,4 milljónum króna, en voru 189,5 milljónir árið 2012.