*

mánudagur, 27. september 2021
Innlent 1. júlí 2017 11:09

Hagnaður eykst um 54%

Icepharma velti tæplega 9,2 milljörðum króna í fyrra sem er 8% meiri velta en árið á undan.

Trausti Hafliðason
Haraldur Jónasson

Icepharma hf. hagnaðist um 292 milljónir króna í fyrra samanborið við 190 milljónir króna árið 2015. Hagnaðurinn jókst því um 54% á milli ára. Veltan nam tæplega 9,2 milljörðum króna í fyrra og jókst um 8% frá 2015 þegar hún var tæplega 8,5 milljarðar. Rekstrargjöldin hækkuðu úr ríflega 8,2 milljörðum króna í tæplega 8,8 milljarða.

Icepharma er þekktast fyrir sölu á lyfjum, sem og lækninga- og hjúkrunarvörum. Starfsemin einskorðast samt ekki við þetta því fyrirtækið selur einni ýmsar aðrar heilsutengdar vörur eins og vítamín, húð- og hárvörur. Þá er Icepharma umboðsaðili fyrir fjöldamörg vörumarki og má til dæmis nefna Nike og Speedo.

Eignir Icepharma námu tæplega 1,3 milljörðum um síðustu áramót samanborið við tæplega 900 milljónir í árslok 2015. Eigið fé er rúmlega 500 milljónir og handbært fé nam ríflega 91 milljón króna í lok síðasta árs samaborið en var 1,4 milljónir í lok árs 2015.

Kaupa Yggdrasil

Skuldirnar Icepharma aukast úr um 450 milljónum í ríflega 740 á milli ára. Skýringin á aukinni skuldsetningu er að stórum hluta vegna þess að um áramótin 2016 var tilkynnt um kaup Icepharma á fyrirtækinu  Yggdras­il ehf. Í lok nóvember á síðasta ári var síðan félagið sameinað Icepharma.

Yggdrasill, sem var stofnað árið 1986, var heild­sölu­fyr­ir­tæki í inn­flutn­ingi og sölu á líf­ræn­um vör­um og heilsu­vör­um. Helstu vörumerki fé­lags­ins, sem Icepharma hefur nú tekið yfir, voru til dæmis NOW fæðubót­ar­efni og mat­vör­ur und­ir merki Him­neskr­ar Holl­ustu.

Icepharma  greiddi eiganda sínum, Eignarhaldsfélaginu Lyngi, 190 milljónir króna í arð vegna síðasta rekstrarárs en vegna ársins 2015 nam arðgreiðslan 160 milljónum. Á tveimur árum nema arðgreiðslur til Eignarhaldsfélagsins Lyngs því 350 milljónum króna. Eignarhaldsfélagið Lyng á allt hlutafé í Icepharma.

Styrking krónunnar

Hörður Þórhallsson tók við forstjórastöðunni hjá Icepharma um miðbik síðasta árs þegar Margrét Guðmundsdóttir hætti. Margrét er í dag framkvæmdastjóri Eignarhaldsfélagsins Lyngs, sem er móðurfélag Icepharma eins og áður sagði. Hörður segir að reksturinn í fyrra hafi gengið vel og kaupin á heilsvörufyrirtækinu Yggdrasil standi upp úr.

„Við höfum verið vaxa mjög mikið á þeim vettvangi, sem og í sölu á íþróttavörum," segir Hörður. „Mesta veltan er samt enn í sölu lyfja. Það hefur samt verið á brattan að sækja þar vegna styrkingar krónunnar. Það helgast af því að lyfjagreiðslunefnd miðar sína verðskrá fyrir sjúkrahúslyf, svokölluð S-merkt lyf, við lægsta fáanlega verðið á Norðurlöndum. Það gefur því augaleið að tekjur okkar vegna þessa hafa verið að lækka töluvert vegna styrkingar krónunnar. Á móti hefur ríkið sparað sér verulegar fjárhæðir í lyfjakaupum vegna krónunnar."

Hörður segir að rekstrarlega sé útlitið fyrir þetta ár ágætt fyrir utan það að krónan hafi heilt yfir verið að styrkjast. Það geri lyfjasviði Icepharma erfitt fyrir.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð