*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 4. maí 2021 10:58

Hagnaður Eyris dregst saman

Eyrir Invest fjárfesti um fimm milljörðum króna í dótturfélaginu Eyrir Ventures á síðasta ári.

Ritstjórn
Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest
Haraldur Guðjónsson

Fjárfestingarfélagið Eyrir Invest hf., sem á nærri fjórðungshlut í Marel. hagnaðist um 93 milljónir evra, eða um 14 milljarða króna, á síðasta ári, að því er kemur fram í ársreikningi félagsins. Hagnaður Eyris nam 327 milljónum evra árið 2019, sem var óvenju hár vegna mikillar hækkunar á hlutabréfagengi Marel, og dróst því saman um meira en 70% milli ára.

Laun og launatengd gjöld námu 1,5 milljónum evra og lækkuðu um 90 þúsund evrur, eða um 13,6 milljónir króna, milli ára en stöðugildi félagsins stóðu óbreytt í fimm talsins. Fjárfestingafélagið greiddi 9,6 milljónir evra í arð í júní 2020.

Heildareignir félagsins voru um einn milljarður evra í árslok 2020 og hækkuðu um 113 milljónir evra milli ára. Eigið fé Eyris var um 765 milljónir evra, skuldir um 262 milljónir evra og eiginfjárhlutfallið því 74,5% í lok síðasta árs.

Á fyrri hluta ársins 2019 samdi félagið við Citibank um fjármögnun á hluta af eignum félagsins um 50 milljónir evra. Á síðasta ári var lánssamningur Eyris við Citibank hækkaður í 110 milljónir evra. Í yfirlýsingu stjórnar og framkvæmdastjóra segir að kjörin sem félaginu bjóðast hjá Citibank séu hagstæðari en eru í boði á innlendum fjármagnsmarkaði auk þess sem geta bankans til að styðja við frekari fjárfestingar sé mikil. Með lántökunni minnki endurfjármögnunaráhætta ásamt því að getan til frekari fjárfestinga eykst.

Fimm milljarðar í Eyrir Ventures

Eyrir hefur verið stærsti hluthafi Marel frá árinu 2005 og á í dag um 24,7% eignarhlut í fyrirtækinu. Fjárfestingafélagið á einnig 46,5% hlut í Eyrir Sprotum, sem fjárfestir í sprota- og vaxtafyrirtækjum með áherslu á alþjóðlegan vöxt. Eyrir Invest keypti nýja hluti í Eyrir Sprotum fyrir 1,6 milljónir evra á síðasta ári.

Eyrir Invest á allt hlutafé í dótturfélaginu Eyrir Ventures sem fjárfestir í sprota- og vaxtarfyrirtækjum. Á síðasta ári keypti Eyrir Invest nýja hluti í Eyrir Ventures fyrir 33 milljónir evra, eða um fimm milljarða króna, og greiddi fyrir með skuldabréfum og reiðufé.

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest, er stærsti hluthafi félagsins með 20,6% hlut. Sonur hans Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, á 17,9% hlut. Landsbankinn á 14% hlut, B-deild LSR á 11,5% og Lífeyrissjóður verzlunarmanna er með 11,2% hlut í Eyri Invest.