Nautafélagið ehf., sem heldur utan um rekstur Hamborgarafabrikkunnar, skilaði í fyrra 8,7 milljóna króna hagnaði, en árið 2014 nam hagnaðurinn 23,1 milljón króna. Kemur þetta fram í ársreikningi félagsins.

Reikningurinn er samandreginn, þannig að velta fyrirtækisins er ekki gefin upp. Afkoma fyrir afskriftir og fjármagnsliði var í fyrra 11,7 milljónir króna, en var 17,4 milljónir árið 2014. Stóri munurinn á milli ára liggur hins vegar í því að áhrif dótturfélaga voru jákvæð um rúmar tvær milljónir króna í fyrra en voru jákvæð um 17,7 milljónir króna árið 2014.

Félagið er í eigu þeirra Sigmars Vilhjálmssonar, Jóhannesar Ásbjörnssonar, Skúla Gunnars Sigfússonar og Snorra Marteinssonar í gegnum félagið Flugkýr ehf.

Eignir Nautafélagsins voru um síðustu áramót 203,7 milljónir króna, en þar af voru fastafjármunir 123,3 milljónir. Eigið fé nam 63 milljónum króna og skuldir 140,7 milljónum. Langtímaskuldir námu um áramótin 57,7 milljónum króna.