Cambridge Analytica skandallinn virðist ekki hafa haft samstundis áhrif á rekstur Facebook því hagnaður félagsins jókst um 63% á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam tæplega 5 milljörðum dala eða sem nemur 500 milljörðum króna en hann var rúmlega 3 milljarðar í fyrra.

Tekjur Facebook jukust einnig um tæplega 50% og námu tæpum 12 milljörðum dala en afkoman fór fram úr væntingum greinenda.

Facebook bætti við sig um 70 milljónum notenda á fyrstu þremur mánuðum ársins og heildarfjöldi notenda er því orðinn 2,2 milljarðar.

Eftir að greint hafði verið frá rekstrarniðurstöðu ársfjórðungsins hækkuðu bréf félagsins um 7%. Áður en uppgjörið hafði verið birt höfðu bréf félagsins þó lækkað um 18% síðan í febrúar.