Hagnaður Facebook var meiri á öðrum ársfjórðungi en búist var við, eða 2,6 milljarðar Bandaríkjadala, sem samt var um helmingun frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 5,1 milljarði dala. Á fyrirmarkaði hefur gengi bréfa félagsins hækkað um tæplega 2% þegar þetta er skrifað.

Hagnaðurinn fyrir apríl, maí og júní hjá samfélagsmiðlafyrirtækinu námu því um 319,9 milljörðum íslenskra króna. Tekjurnar á sama tíma námu hins vegar 16,9 milljörðum dala, sem er 28% aukning frá um 13,2 milljarða dala tekjum á sama tíma árið 2018.

Ástæðan fyrir minnkandi hagnaði var að kostnaðurinn jókst um tvo þriðju, og fór úr 7,4 milljörðum dala í 12,3 milljarða. Tveir af þessum milljörðum eru gjaldfelling á hluta af 5 milljarða dala sekt sem félagið tilkynnti í gær að félagið þyrfti að greiða vegna Cambridge Analyta hneykslisins þar sem upplýsingar um 87 milljón notendur hjá Facebook voru nýttar á ólögmætan hátt.

Notendur Facebook eru 2,7 milljarðar manns, yfir öll helstu kerfi í eigu félagsins, þar af stóð notendahópurinn í Evrópu í stað, í 286 milljónum daglegra notenda, en jókst í Bandaríkjunum og Kanada um milljón í 187 milljónir. Segir félagið tekjur á notenda hafa aukist um 18%, í 7,05 dali á haus í stað 5,97 dali á haus fyrir ári síðan.

Félagið vinnur nú að samþættingu samskiptakerfa WhatsApp, Messenger og Instagram og uppfæra dulkóðun síðari tveggja kerfana á pari við það sem WhatsApp notar. Jafnframt eru tekjukerfi félagsins að breytast úr NewsFeed auglýsingum í það sem félagið kallar Stories.