Hagnaður Félagsbústaða nam 1,4 milljörðum króna á síðasta ári og skýrist að mestu af hækkun fasteignamats um 1,7 milljarða króna á árinu, samkvæmt ársreikningi félagsins fyrir árið 2020.

Tekjur félagsins voru 4,7 milljarðar króna og jukust um tæp 3,5% milli ára en rekstrargjöld námu 2,5 milljörðum króna, sem er liðlega 3,6% aukning frá fyrra ári. Rekstur fasteigna og eignfærður kostnaður vegna þeirra nam rúmlega þremur milljörðum króna og fjárfesting í nýjum eignum nam rúmlega 3,8 milljörðum króna.

Í árslok 2020 voru skuldir félagsins 48,7 milljarðar króna og höfðu aukist um 7,8% milli ára. Skuldbindingar vegna stofnframlaga ríkis og Reykjavíkurborgar námu 2,9 milljörðum króna á árinu sem er aukning um 1,3 milljarða frá fyrra ári.

Eignir Félagsbústaða voru samkvæmt efnahagsreikningi rúmlega 100 milljarðar króna í árslok 2020, en þar af nema fjárfestingareignir 99 milljarðar. Eiginfjárhlutfall félagsins í árslok 2020 var 48,6% samanborið við 50,4% í lok árs 2019.

Í skýrslu stjórnar kemur meðal annars fram að fjármagnsgjöld Félagsbústaða lækkuðu um 210 milljónir króna á árinu 2020 miðað við fyrra ár og námu 1,1 milljarði króna. Lækkun fjármagnsgjalda um 18% má rekja til endurfjármögnunar á eldri óhagstæðum lánum og til betri vaxtakjara hjá stærsta lánveitanda félagsins.

Mestu íbúðakaup Félagsbústaða í áratug

Félagið, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, leigir út hátt í 3.000 íbúðir og á árinu 2020 var fjárfest í 127 nýjum íbúðum, sem eru  mestu íbúðakaup Félagsbústaða á einu ári í meira en áratug. Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Félagsbústaða, segir sérstaklega ánægjulegt að viðbótin við eignasafnið á síðasta ári sé að stórum hluta nýbyggðar íbúðir, að því er kemur fram í fréttatilkynningu.

Íbúðir félagsins eru í öllum hverfum borgarinnar og ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum undir tilteknum eigna- og tekjumörkum, auk leiguíbúða fyrir aldraða og fólk með fötlun. Félagslegar íbúðir eru nú um 5% af íbúðarhúsnæði í borginni og er leiguverð þeirra talsvert lægra en á almennum markaði.

Á síðasta ári hófust framkvæmdir við byggingu tveggja sex íbúða húsa, við Árland 10 og Stjörnugróf 11 sem áformað er að ljúki á fyrri hluta 2021. Undirbúin var bygging þriggja minni fjölbýlishúsa við Vesturgötu 67, Rökkvatjörn 3 og Hagasel 23 og verður það síðastnefnda fyrsta Svansvottaða húsið sem Félagsbústaðir byggja.