Hagnaður Ferrari NV hækkaði um 26% á öðrum fjórðungi þessa árs. Hagnaðurinn fyrir fjármagnskostnað og skatta nam því tæpum 156 milljónum evra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Hagnaður fyrsta ársfjórðungs nam 124 milljónum evra og höfðu greiningaraðilar spáð hagnaði upp á 134,9 milljónir. Tekjurnar jukust um 5,9% milli fjórðunga og voru nú 811 milljónir evra.

Ferrari aðskildi sig frá Fiat Chrysler samsteypunni og fór svo á markað í lok október 2015. Útboðsgengi félagsins var þá um 52 dalir á hlut, en hvert bréf fæst nú á rúmlega 46 dali.

Sergio Marchionne er núverandi framkvæmdastjóri Ferrari. Hann hefur viljað auka hagnað með því að gefa oftar út takmarkaðar útgáfur af bílum.