Hagnaður af rekstri Festar á fyrsta fjórðungi ársins nam 465 milljónum króna og jókst um tæp 65% sé miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) jókst mikið á milli ára og nam 1749 milljónum á tímabilinu miðað við 1505 milljónir fyrsta ársfjórðungi 2021.

Eigið fé félagsins nam tæpum 32 milljörðum við lok tímabilsins og eiginfjárhlutfall þess 36,6% miðað við 39,4% við árslok 2021. Fram kemur í afkomutilkynningu til Kauphallarinnar aðEBITDA  spá félagsins fyrir árið 2022 hafi verið  hækkuð um 400 millj. kr. og er nú 9400 - 9800 milljónir króna.

Haft er eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festar, í tilkynningunni að ánægja sé með afkomuna á fjórðungnum þrátt fyrir krefjandi aðstæður: „Væntingar okkar stóðu til þess að afleiðingar heimsfaraldursins á aðfangakeðjuna síðustu 2 árin, myndu ganga til baka á þessu ári. Fyrsti stríðsreksturinn í Evrópu frá árinu 1945 breytti þeirri mynd algjörlega. Ljóst er að innrás Rússa í Úkraínu hefur haft mikil áhrif á verð á hrávörumörkuðum og aukið óvissu í aðfangakeðjunni enn frekar. Við munum áfram kappkosta að þjónusta okkar viðskiptavini sem best og leita leiða til að auka hagkvæmni og þannig vinna gegn þeim verðhækkunum á aðföngum sem nú ganga yfir."