Hagnaður Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, nam 289 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 53 milljónir á sama tíma á síðasta ári. Tekjur og afkoma Krónunnar og Elko jukust talsvert milli ára en N1 var rekið með tapi. Þetta kemur fram í árshlutareikningi félagsins.

Sala samstæðunnar nam alls 20,9 milljörðum króna á ársfjórðungnum og jókst um tvo milljarða, eða 11%, milli ára. Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 5,1 milljarði króna og hækkaði um 19,5% milli ára. Festi áætlar að kostnaður vegna Covid hafi verið 37 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 48 milljónir á sama fjórðungi árið áður.

Fjöldi stöðugilda var 1.120 á fjórðungnum sem er fjölgun um 23 stöðugildi milli ára. Laun og annar starfsmannakostnaður jókst um 413 milljónir króna og nam 2,8 milljörðum króna en tvær samningsbundnar launahækkanir tóku gildi milli tímabilanna.

Eigið fé Festi í lok mars var 29,2 milljarðar króna, samanborið við 29,8 milljarða í árslok 2020. Skuldir jukust um 1,1 milljarð króna frá áramótum og námu 54,7 milljörðum. Því var eiginfjárhlutfall samstæðunnar um 34,8% í lok mars samanborið við 35,7% í árslok 2020..

N1 tapaði 210 milljónum króna á fyrsta fjórðungi ársins, samanborið við 362 milljóna tap árið áður. Tekjur olíufyrirtækisins drógust saman um 8,5% milli ára og námu 6,7 milljörðum króna. Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, segir í tilkynningu samhliða uppgjörinu að N1 hafi þurft að fækka starfsfólki vegna samkomutakmarkana en kaupin á Ísey skyrbar hafa aukið umsvif á þjónustustöðvum félagsins.

Krónan hagnaðist um 309 milljónir króna á fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tíma í fyrra nam hagnaður matvöruverslunarinnar 203 milljónum. Tekjur Krónunnar jukust um 1,8 milljarða króna eða um tæp 20% milli ára og námu alls 11,4 milljörðum.

Sjá einnig: Besta ár Krónunnar og Elko frá upphafi

Hagnaður Elko á tímabilinu meira en þrefaldaðist frá fyrra ári og nam 141 milljón króna, samanborið við 42 milljónir á fyrsta fjórðungi 2020. Tekjur raftækjaverslunarinnar jukust um 25% milli ára og námu 3,3 milljörðum króna. Eggert segir að Elko hafi aukið sölu sína gegnum vefverslun og að fyrirtækið hafi sýnt mikla aðlögunarhæfni við mjög breyttar aðstæður.

„Niðurstaða fyrsta ársfjórðungs er mjög ánægjuleg miðað við þær samkomutakmarkanir sem verið hafa og öll félög samstæðunnar bættu rekstur sinn samanborið við fyrsta ársfjórðung 2020,“ segir Eggert. „Nú hillir undir lokin á heimsfaraldrinum þar sem bólusetningar ganga betur og vonandi getum við farið að horfa til betri tíma um mitt ár og aukin umsvif.“