Hagnaður Festi, móðurfélags N1, Krónunnar og Elko, á öðrum ársfjórðungi jókst um 28,1% á milli ára og nam 1,3 milljörðum króna. Sala Festi á fjórðungnum var 23% hærri en á sama tíma í fyrra og nam 29,9 milljörðum. Félagið hefur fært upp EBITDA-spá sína fyrir árið um 400 milljónir og er hún nú á bilinu 9,8-10,0 milljarðar króna.

„Reksturinn á öðrum ársfjórðungi gekk vel og umfram áætlanir okkar. N1 eykur veltu sína og afkomu verulega á milli ára með fjölgun erlendra ferðamanna og auknum umsvifum hjá stórum viðskiptavinum félagsins. Rekstur ELKO og Krónunnar var einnig góður á öðrum ársfjórðungi. Hækkun á eldsneyti og matvöru eykur fjárbindingu í birgðum verulega miðað við sama fjórðung í fyrra, sem er afleiðing stríðsreksturs í Úkraínu og alþjóðlegrar verðbólgu,“ segir Eggert Þór Kristófersson, fráfarandi forstjóri Festi, í uppgjörstilkynningu.

Eignir Festi voru bókfærðar á 91,2 milljarða í lok júní, samanborið við 86,0 milljarða í árslok 2021. Eigið fé í lok júní nam 33 milljörðum og eiginfjárhlutfall var 36,2%.

Velta N1 eykst um helming

Tekjur allra þriggja lykildótturfélaga Festi jukust á milli ára en sérstaklega hjá N1. Velta olíufyrirtækisins á fyrstu sex mánuðum ársins nam 23,9 milljörðum, sem er 49% aukning frá fyrri árshelmingi 2021. N1 hagnaðist um 465 milljónir á fyrri helmingi þessa árs samanborið við 24 milljóna tap á sama tíma í fyrra.

Velta Krónunnar á fyrri helmingi ársins jókst um 2,6% frá fyrra ári og nam 23,8 milljörðum. Hagnaður matvöruverslunarinnar eftir skatta dróst hins vegar saman úr 812 milljónum í 574 milljónir á milli ára. Taka skal þó fram að verslunum Krónunnar fækkaði um tvær frá fyrra ári eftir sölu tveggja þeirra um mitt síðasta ár en fjölgaði aftur um eina þegar ný verslun opnaði í Borgartúni þann 12. maí síðastliðinn.

Tekjur raftækjaverslunarinnar Elko jukust um 8,9% á milli ára og námu 7,4 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins. Elko hagnaðist um 305 milljónir á tímabilinu samanborið við 318 milljónir á sama tíma í fyrra.