Hagnaður Festi á fjórða ársfjórðungi ríflega tvöfaldaðist milli áranna 2018 og 2019, en þann 1. september 2018 tók félagið sem þá hét N1 yfir rekstur félagsins sem þá hét Festi, og fór hann úr því að vera 327,5 milljónir í 714,8 milljónir króna, sem er aukning um 118,3%.

Þrátt fyrir það drógust tekjur félagsins saman milli ára ef miðað er við ársfjórðunginn, eða um 5,7%, en heildartekjurnar fóru úr 22,9 milljörðum króna í 21,6 milljarða króna.

Heildarrekstrarkostnaðurinn dróst hins vegar meira saman, eða um 7,2%, úr 21,4 milljörðum króna í 19,8 milljarða króna. Þar af dróst kostnaðarverð seldra vara saman um 4,7%, úr 22,5 milljörðum í 21,5 milljarða, meðan liðurinn rekstrarkostnaður hækkaði í sjálfu sér um 8,3%, úr 3,3 milljörðum í 3,6 milljarða króna.

Framlegðin af vöru- og þjónustusölunni einni saman hækkaði svo um 10,6% milli áranna á ársfjórðungnum, eða úr tæplega 4,9 milljörðum króna í tæplega 5,4 milljarða króna.

EBITDA Festi, eins og gamla N1 heitir nú, að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk, sem er nýja nafnið á gamla Festi sem hélt utan um verslanir Krónunnar, Elko og fleiri eignir, nam tæplega 1,8 milljarði króna á fjórða ársfjórðungi 2019 samanborið við ríflega 1,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi 2018 sem er 15,5% hækkun á milli ára.

Hagnaðurinn jókst um ríflega þriðjung á ársgrundvelli

EBITDA að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk nam 7.743 milljónum króna árið 2019 samanborið við 4.958 milljónir króna árið 2018 sem skýrist af mestu að því að ELKO, Krónan, Bakkinn og Festi fasteignir voru hluti af samstæðu Festi 4 mánuði 2018, en allt árið 2019.

Heildarhagnaður Festi yfir árið 2019 nam tæplega 2,8 milljörðum króna, sem er aukning um ríflega þriðjung, eða 35,8% frá árinu 2018 þegar hann var tæplega 2,1 milljarður, en eins og áður segir voru félögin tvö ekki sameinuð nema síðustu fjóra mánuði þess árs.

Eigið fé félagsins jóksst á árinu 2019 um 10,5%, úr tæplega 26 milljörðum króna í 28,7 milljarða króna, meðan skuldirnar jukust um 1,4%, úr 51,8 milljörðum í 52,6 milljarða.

Þar með jukust eignirnar um 4,4% milli ára og eiginfjárhlutfallið hækkaði úr 33,4% í 35,3%. Í tilkynningu segir að vaxtaberandi skuldir félagsins hafi numið 33,4 milljörðum í árslok 2019, en 37,3 milljörðum ári fyrr, meðan hreinar vaxtaberandi skuldir hafi farið úr 33 milljörðum í 28 á árinu og lækkað um 5.036 milljónir króna á árinu.

„Reksturinn á fjórða ársfjórðungi 2019 var umfram væntingar okkar og í raun frábær endir á fyrsta heila rekstrarári Festi samstæðunnar þrátt fyrir mikið umrót í íslensku efnahagslífi. Má þar nefna loðnubrest, gjaldþrot WOW air, samdrátt í ferðaþjónustu og harðan upptakt í aðdraganda kjarasamninga,“ segir Eggert Þór Kristófersson forstjóri Festi.

„Krónan fékk 1. verðlaun í Íslensku ánægjuvoginni og ljóst er að Krónan er að skapa sér sterkari stöðu á matvörumarkaði ár frá ári. Rekstur N1 var í takt við væntingar þrátt fyrir samdrátt í ferðaþjónustu. Rekstur ELKO var undir væntingum framan af ári en góður viðsnúningur varð á fjórða ársfjórðungi 2019. Fjárhagsstaða Festi er mjög traust og sjóðstreymið er sterkt og lækkuðu skuldir samstæðunnar um 5 milljarða á árinu sem styrkir félagið í að vera áfram leiðandi á þeim mörkuðum sem við störfum til að skapa virði fyrir alla haghafa með hagskvæmni og traust að leiðarljói.“