Hagnaður Festi nam yfir 1,4 milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi og tekjur 24 milljörðum. Hagnaðurinn jókst um 44% og tekjurnar um 37%, en tekjuaukningin skýrist af fjölgun félaga í samstæðunni. Þetta kemur fram í nýbirtu árshlutauppgjöri félagsins .

Sala krónunnar var meiri en áætlanir höfðu gert ráð fyrir á fjórðungnum, en sala N1 að undanskilinni eldsneytissölu var undir áætlunum. Þá dróst bensín- og gasolíusala saman um rúm 5% milli ára.

„Við erum mjög ánægð með uppgjör þriðja ársfjórðungs 2019 og gengur rekstur okkar vörumerkja vel og efnahagur Festi er sterkur. Nú er rúmlega ár síðan við tókum við ELKO, Krónunni og Bakkanum og mikil vinna hefur átt sér stað til að ná fram samþættingu í rekstri Festi og því kostnaðarhagræði sem stefnt var að við kaupin og hefur það gengið eftir. Nú þegar hagkerfið er að kólna eftir áfall í ferðaþjónustu í byrjun ársins þá skiptir miklu máli að vera með réttu vöruna og þjónustuna, þar stöndum við afar sterkt.“ er haft eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festi, í tilkynningunni.