Hagnaður Fjarðarkaupa nam 9,8 milljónum króna á síðasta ári en 74 milljónum króna árið 2016. Því dregst hagnaður fyrirtækisins saman um 87% milli ára. Vörusala dróst saman um tæp 8% milli ára og nam tæpum 2,8 milljörðum króna. Rekstrarhagnaður lækkaði úr 82 milljónum króna í 9,7 milljónir króna milli ára.

Fjarðarkaup reka eina verslun, í Hólshrauni í Hafnarfirði, sem er í um 1,6 kílómetra fjarlægð frá verslun Costco í Kauptúni, sem opnaði í maí í fyrra.

Eignir Fjarðarkaupa námu 664 miljónum um áramótin, eigið fé 312 milljónum króna og skuldir 352 milljónum króna. Laun og launatengd gjöld námu 344 milljónum króna og voru nær óbreytt milli ára. Ekki er lagt til að arður verði greiddur af starfsemi ársins 2017. Fjarðarkaup eru í eigu Sigurbergs Sveinssonar, annars stofnanda verslunarinnar, og afkomenda.