Hagnaður Fjörukrárinnar ehf. ríflega tuttugufaldaðist á milli áranna 2013 og 2014 að því er kemur fram í ársreikningi félagsins. Árið 2013 nam hagnaður félagsins tæplega 1,6 milljónum króna, en var 32,6 milljónir í fyrra. Munar þar mest um höfuðstólslækkun gengistryggðra lána upp á 27,4 milljónir króna í fyrra.

Velta fyrirtækisins jókst verulega á milli ára, var 249,7 milljónir árið 2013 en var 289,4 milljónir í fyrra. Rekstrarhagnaður eftir afskriftir var 24,7 milljónir í fyrra, en var 10,1 milljón árið 2013. Fjármagnsliðir voru jákvæðir um 16,1 milljón í fyrra vegna áðurnefndrar höfuðstólslækkunar, en voru neikvæðir um 8,2 milljónir árið 2013.

Eignir Fjörukrárinnar voru í árslok síðasta árs 198 milljónir króna, en voru 183,2 milljónir ári fyrr. Skuldir námu um síðustu áramót 152 milljónum króna og þar af voru langtímaskuldir 125,6 milljónir. Eigið fé nam tæpum 46 milljónum króna.