Hagnaður framtakssjóðsins SÍA III slhf. þrefaldaðist á árinu 2020 og nam einum og hálfum milljarði króna í samanburði við 466 milljónir árið áður. Þá var hagnaður SÍA II slhf. á sama tíma 7 milljónir en tap ársins á undan nam 151 milljón. Þetta kemur fram í ársreikningum sjóðanna fyrir árið 2020. Báðir sjóðir eru í rekstri hjá Stefni, sjóðsstýringarfélagi Arion banka.

Mest munar um hækkun á verðmati SÍA III á 70% hlut sjóðsins í Lyfju sem nú metinn er á 3,4 milljarða króna en var metinn á 2,4 milljarða króna fyrir ári.

SÍA III á einnig 65% hlut í Gámaþjónustunni, 100% hlut í hugbúnaðarfyrirtækinu Men & Mice og 70% hlut í vélsmiðju Hamars ehf. Þá á félagið einnig helmingshlut í Mandólín hf. sem heldur utan um fjárfestingu íslenskra fjárfesta í Marriott Edition hótelinu sem rís nú við Hörpu.

Eignir SÍA III námu 11 milljörðum í lok árs 2020. Þá var eigið fé SÍA III 10,7 milljarðar. Eignir SÍA II námu 1,9 milljörðum í lok árs 2020 en eigið féð var 1,08 milljarðar króna. SÍA II á 35% hlut í Kynnisferðum og fjórðungshlut í Verne Global sem rekur gagnaversþjónustu.

Sjá einnig: Tap vegna hótels við Hörpu 735 milljónir

Stærstu hluthafar SÍA III eru Gildi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og lífeyrissjóður verzlunarmanna sem eiga öll í kringum 14% hlut. Stapi lífeyrissjóður á 9,7% hlut, Festa lífeyrissjóður á 9,3% hlut og Frjálsi lífeyrissjóðurinn á 7,6% hlut.

Þá eru stærstu hluthafar SÍA II Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Gildi lífeyrissjóður með í kringum 16% hvort. Stapi lífeyrissjóður á 10% og Festa lífeyrissjóður, Arion banki og Frjálsi lífeyrissjóðurinn eiga hvert um sig 7,5% hlut.