*

mánudagur, 18. janúar 2021
Innlent 29. nóvember 2020 11:50

Hagnaður Garðlistar lækkar um fjórðung

Skuldir félags Brynjars Kjærnested jukust um nærri 90% á árinu, eða um 70 milljónir króna.

Ritstjórn
Brynjar Kjærnesteder er eigandi og framkvæmdastjóri Garðlistar.
Haraldur Guðjónsson

Garðlist hagnaðist um 122 milljónir árið 2019 og lækkaði hagnaður um ríflega 24% frá fyrra ári þegar hann nam 161 milljón króna.

Velta félagsins jókst um 8,5%, úr 842 milljónum króna í ríflega 913 milljónir króna, meðan rekstrargjöldin jukust um tæplega fimmtung, úr 642 milljónum í 768 milljónir króna. Þar af jukust laun og launatengd gjöld um 15,4%, úr 354 milljónum króna í 409 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður félagsins dróst þar með saman um 27%, úr rétt tæplega 200 milljónum króna í tæplega 146 milljónir króna.

Eigið fé félagsins jókst um 23,5%, úr tæplega 370 milljónum króna í rúmlega 456 milljónir, meðan skuldir félagsins jukust um nærri 90% milli ára, úr 80 milljónum króna í tæpa 151 milljón króna, eða um tæplega 71 milljón krónur.

Þar með jukust eignirnar um 35%, úr 449 milljónum króna í 607 milljónir króna og því lækkaði eiginfjárhlutfall félagsins úr 82,2% í 75,2%. Garðlist er í eigu Brynjars Kjærnested sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins. Félagið greiddi út 35 milljónir í arð á síðasta ári.