Hagnaður bandaríska bankans Goldman Sachs nam 1,9 milljarði dala, andvirði um 230 milljarða króna, á öðrum ársfjórðungi, en hagnaður bankans á sama tímabili í fyrra nam 927 milljónum dala.

Fjárfestingar í skuldabréfum og hlutabréfum skiluðu bankanum 1,4 milljörðum dala í tekjur, en í fyrra námu tekjur af þessu tagi aðeins um 200 milljónum dala.

Tekjur af fjárfestingabankastarfsemi Goldman Sachs námu 1,6 milljarði dala og jukust um 29% á milli ára. Miðlun skilaði bankanum 2,7 milljörðum dala og tekjur af þessari starfsemi jukust um 28% milli ára.

Afkoman á öðrum ársfjórðungi var töluvert betri en gert hafði verið ráð fyrir en í frétt BBC segir að hagnaðurinn hafi verið um 30% meiri en sérfræðingar höfðu spáð fyrir um.