Hagnaður HB Granda á fyrsta ársfjórðungi nam 3,25 milljónum evra, eða sem samsvarar 401 milljón íslenskra króna. Það er samdráttur milli ára um 12,5%, eða um 464 þúsund evrur. Það samsvarar 57 milljónum íslenskra króna.

Rekstrartekjur samstæðunnar voru 50,2 milljónir evra, eða sem samsvarar tæplega 6,2 milljörðum íslenskra króna. Á sama tíma fyrir árið námu þær 42 milljónum evra.

Handbært fé frá rekstri tvöfaldaðist

EBITDA félagsins var 7,8 milljónir evra og EBITDA hlutfallið 15,5% en nam 7,4 milljónum evra og 17,6% árið áður. Handbært fé frá rekstri nam 9,9 milljónum evra, eða sem samsvarar 1.220 milljónum króna fyrstu þrjá mánuði þessa árs, en á sama tíma fyrir ári var það ríflega helmingi minna, eða 4,1 milljón evra.

Einungis voru fryst 1.265 tonn af loðnuhrognum nú á móti 3.736 tonnum 2017. Áhrif fjáreignatekna og fjármagnsgjalda voru neikvæð um 1,3 milljónir evra, en voru neikvæð um 0,5 milljónir evra á sama tíma árið áður. Áhrif hlutdeildarfélaga voru jákvæð um 1,4 milljónir evra, en voru jákvæð um 0,5 milljónir evra árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt var 4,1 milljónir evra.

Heildareignir nálega 63 milljarðar

Heildareignir félagsins námu 508,6 milljónum evra í lok mars 2018, eða sem samsvarar 62,7 milljörðum króna. Þar af voru fastafjármunir 424,6 milljónir evra og veltufjármunir 84,0 milljónir evra. Eigið fé nam 259,9 milljónum evra, eiginfjárhlutfall í lok mars var 51,1%, en var 51,6% í lok árs 2017. Heildarskuldir félagsins voru í marslok 248,8 milljónum evra.

Fjárfestingarhreyfingar voru neikvæðar um 12,6 milljónir evra, en fjármögnunarhreyfingar voru jákvæðar um 1,0 milljón evra. Handbært fé lækkaði því um 1,7 milljón evra á tímabilinu og var í lok mars 15,9 milljónir evra.

Nýtt skip tekið í notkun á árinu

Í janúar var ísfiskstogarinn Akurey AK-10 tekinn í notkun og á sama tíma var Sturlaugi AK-105 lagt.  Verið er að gera Viðey RE-50 tilbúna til veiða og er gert ráð fyrir að farið verði í fyrsta prufutúrinn í júní, á sama tíma verður Ottó N. Þorláksson RE-203 afhentur nýjum eiganda.

Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2018 var afli skipa félagsins 11,1 þúsund tonn af botnfiski og 39,0 þúsund tonn af uppsjávarfiski.