Haga-samstæðan hagnaðist um 628 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi fyrirtækisins. Þetta er 13% aukning á milli ára en hagnaðurinn nam 557 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Hagnaðurinn nemur 54 aurum á hlut samanborið við 48 aura á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.

Fram kemur í uppgjörinu að vörusala á tímabilinu hafi numið tæpum 17,4 milljörðum króna samanborið við 16,5 milljarða í fyrra. Aukningin nemur 5,2%.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 1.137 milljónum króna og er það sléttum hundrað milljónum krónum meira en í fyrra.

Þá segir í uppgjörinu að framlegð Haga hafi numið 4.185 milljónum króna samanborið við 3.879 milljónir í fyrra. Hlutfallið nam 24,1% samanborið við 23,5% í fyrra. Annar rekstrarkostnaður er nokkuð sambærilegur milli ára sem hlutfall af veltu, eða 17,7% samanborið við 17,4% í fyrra. Kostnaðarhækkanir milli ára skýrast að mest öllu leyti af vísitölutengdum kostnaðarhækkunum og kjarasamningshækkunum launa.

Þá kemur fram í uppgjörinu að heildareignir Haga hafi í lok fjórðungsins (í enda maí) numið 24.636 milljónum króna. Það jafngildir 1,2 milljarða króna aukningu á milli ára.

Handbært fé Haga-samstæðunnar nam 2.773 milljónum króna í lok fjórðungsins. Það nam 2.149 milljónum króna á sama tíma í fyrra. Þá nam eigið fé 6.897 milljónum króna sem er um 300 milljóna króna hækkun á milli ára. Eiginfjárhlutfall  var 28,0% í lok tímabilsins.

Enn óvissa í rekstrinum

Í tilkynningu Haga segir:

„Reksturinn fyrstu þrjá mánuði rekstrarársins var góður. Gert er ráð fyrir að rekstur á árinu verði sambærilegur niðurstöðu síðasta árs. Það er þó ljóst að enn er nokkur óvissa í efnahagslífinu sem hefur áhrif á hag heimilanna, sem eru stærsti viðskiptavinur Haga. Auk þess hefur samkeppnin á matvörumarkaði ávallt verið mikil og líkur á að svo verði áfram. Hagar munu ávallt leita nýrra tækifæra og verið er að skoða hvort rými sé fyrir fyrirtækið að stækka, m.a. með fjölgun Bónusverslana. Ekki hafa þó verið teknar ákvarðanir um stórar fjárfestingar eða fjölgun verslana.“