*

föstudagur, 7. ágúst 2020
Innlent 18. maí 2020 17:26

Hagnaður Haga eykst um 27,5%

Hagar hagnast um 705 milljónir á fjórða ársfjórðungi rekstrarársins og ríflega 3 milljarða yfir árið í heild.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Í ársuppgjöri Haga kemur fram að heildarhagnaður félagsins fyrir síðasta rekstrarár, sem lauk 28. febrúar síðastliðinn, nam 3.054 milljónum króna, sem er 31,8% aukning frá árinu áður þegar hagnaðurinn nam 2.317 milljónum króna. Breyting á yfirstjórn kostar tæplega 315 milljónir króna.

Ef horft er til fjórða ársfjórðungs eingöngu, það er fyrir desember, janúar og febrúar, sést að hagnaðurinn hefur aukist um 27,5%, úr 553 milljónum króna í 705 milljónir króna. Tölurnar eru samanburðarhæfar þar sem yfirtaka Haga á Olíuverzlun Íslands (Olís), tók gildi 1. desember 2019, en samanburðarfjárhæðum fyrri tímabila var ekki breytt.

Dýr breyting forystu félagsins

Heildartekjur fjórða ársfjórðungs jukust um 2,5% milli ára, úr 28,1 milljarði króna í 28,7 milljarða króna, meðan rekstrargjöldin drógust saman um 0,6%, úr 26,7 milljörðum í tæplega 26,6 milljarða. Þar af drógust laun og launatengd útgjöld saman um 0,3% og námu í heildina 3.073 milljónum króna.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um skipti félagið um forstjóra á síðustu vikum, þegar Finnur Oddsson tók við af nafna sínum Árnasyni, sem og að Guðmundur Marteinsson framkvæmdastjóri dótturfélagsins Bónus hætti.

Samkvæmt fréttum var búist við því að forstjóra- og framkvæmdastjóraskiptin kostuðu félagið um 350 milljónir króna, en samkvæmt ársreikningnum nú er kostnaðurinn 314,5 milljónir króna, en hann mun koma fram á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

EBITDA hagnaðurinn tvöfaldaðist

Fyrir allt árið nam vörusala félagsins 116,4 milljörðum króna, sem er aukning um 38,2% milli ára, úr 84,2 milljörðum króna, en aukningin skýrist að mestu af viðbótaráhrifum Olís. Án áhrifa Olís er söluaukning félagsins 4,5% en söluaukning er m.a. í Bónus, þrátt fyrir fækkun verslana milli rekstrarára. Framlegðin á síðasta rekstrarári nam 22%.

Hagnaður ársins fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, nam nærri 8,9 milljörðum króna, sem er rétt um tvöföldun frá 4,5 milljarða EBITDA hagnaði rekstrarársins á undan. EBITDA-hlutfall var 7,6%, samanborið við 5,3% árið áður. EBITDA afkoma án áhrifa IFRS 16 var 6.652 milljónir króna og EBITDA-hlutfall 5,7%.

Eiginfjárhlutfallið komið undir 40%

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarárs námu 62.708 milljónum króna. Fastafjármunir voru 47.554 milljónir króna en þar af er leigueign 9.435 milljónir króna. Veltufjármunir voru 15.154 milljónir króna en þar af eru birgðir 8.380 milljónir króna.

Eigið fé í lok tímabilsins var 24.587 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 39,2%. Heildarhlutafé í lok rekstrarárs nam 1.213 milljónum króna og á félagið eigin hluti að nafnverði 24 milljónir króna. Á milli ára jókst eigið fé félagsins um 1,3%, úr 24,3 milljörðum króna í 24,6 milljarða, meðan skuldirnar jukust um 43,5%, úr 26,6 milljörðum í 38,1 milljarð króna.

þar af voru langtímaskuldir 22.362 milljónir króna. Leiguskuldir voru samtals 10.167 milljónir króna. Vaxtaberandi skuldir voru samtals 13.897 milljónir króna og nettó vaxtaberandi skuldir 11.665 milljónir króna, eða 1,3x12 mánaða EBITDA. Veltufjárhlutfall var 0,96.

Þar með jukust eignirnar um 23,3%, úr 50,9 milljörðum í 62,7 milljarða króna, en eiginfjárhlutfallið lækkaði úr 47,7% í 39,2%. Handbært fé frá rekstri á rekstrarárinu nam 9.828 milljónum króna, samanborið við 2.882 milljónir króna á fyrra ári. Fjárfestingarhreyfingar tímabilsins voru 5.221 milljón króna, samanborið við 6.249 milljónir króna á fyrra ári.

Fjármögnunarhreyfingar voru 3.111 milljónir króna, samanborið við jákvæða fjármögnunarhreyfingu að fjárhæð 3.881 milljónir króna á fyrra ári. Handbært fé í lok tímabilsins var 2.232 milljónir króna, samanborið við 736 milljónir króna árið áður.