Hagar högnuðust um 1.056 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs og jókst hagnaður félagsins um 49,2% frá sama tímabili í fyrra. Hagar birtu uppgjör fyrir fjórðunginn fyrir skömmu en þess ber að geta að reikningsár félagsins nær frá 1. mars til loka febrúarmánaðar og nær annar ársfjórðungur því frá 1. júní til 30. september. Hagnaður félagsins á fyrri helmingi rekstrarársins nam 1.721 milljón og jókst um 19,8% frá sama tímabili í fyrra.

Tekjur félagsins námu 30,9 milljörðum króna á fjórðungnum og jukust um 61,5% milli ára en hækkunin skýrist að mestu leyti af áhrifum frá Olís sem kom inn í samstæðuna þann 1. desember á síðasta ári. Tekjur á fyrri helmingi rekstrarársins námu 59,5 milljörðum og jukust um 57,7% frá sama tímabili í fyrra.

Framlegð félagsins nam 6.670 milljón króna á örðum ársfjórðungi og jókst um 46,2% en framlegðarhlutfall sem er framlegð í hlutfalli af tekjum var 21,6% og lækkaði um 2,3 prósentustig milli ára.

EBITDA á fjórðungnum nam tæplega 2,5 milljörðum og ríflega tvöfaldaðist á milli ára. EBITDA á fyrri helmingi rekstrarársins nam rúmlega 4,5 milljörðum og jókst um 90,3% milli ára. EBITDA sem hlutfall af tekjum var 8,1% á öðrum ársfjórðungi og hækkaði um 1,9 prósentustig á milli ára. EBITDA hlutfall á fyrri helmingi ársins var 7,6% og hækkaði um 1,3 prósentustig á milli ára.

Heildareignir samstæðunnar í lok tímabilsins námu 60.031 milljón króna og hækkuðu um 18,1% frá lok febrúar. Eigið fé í lok tímabilsins var 23.824 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 39,7% en hlutfallið var 47,7% í lok febrúar.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að fyrri helmingur rekstrarársins hafi staðist væntingar og verið í takt við áætlanir félagsins. EBITDA áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið, að undanskyldum áhrifum af IFRS 16 leigustaðli, er óbreytt eða 6.650-7.100 milljónir króna.