Hagnaður Haga nam 2,4 milljörðum króna á síðasta rekstrarári ára, sem nær 1. mars 2017 til 28. febrúar 2018, en var 4 milljarðar króna á fyrra rekstrarári. Hagnaður félagsins lækkar því um tæplega 41% milli ára. Hagar hyggjast greiða helming hagnaðar ársins í arð eða 1.200 milljónir króna.

Vörusala félagsins lækkaði um 8,2% milli ára og nam 73,9 milljörðum króna samanborið við 80,5 milljarða króna. árið áður. Að teknu tilliti til aflagðar starfsemi nam samdrátturinn 4,4%

Töluverðar breytingar á árinu

Hagar lokuðu verslun Debenhams í Smáralind, Korpuoutlet, Útilíf í Glæsibæ, Hagkaup í Holtagörðum, efri hæð Hagkaups Kringlu og tískuvöruverslunum í Smáralind og Kringlunni á ári.

Samdráttur í sölu á matvöruverslunum Haga nam 6,8% á milli ára, magn dróst saman um 3,3% og fjöldi viðskiptavina fækkaði um 1,4%. Þá segja hagar að sé tekið tillit til aflagðar starfsemi haf sala matvöruverslana dregist saman um 4,5%, magn um 2,6% en viðskiptavinum hafi fjölgað um 1%.

Verðhjöðnun, breytingar og aukin samkeppni

Þá segja Hagar að verðhjöðnun vegna styrkingar íslensku krónunnar, betri innkaupa og lægra innkaupsverðs hafi áhrif á veltu félagsins. Þá hafi breytt samkeppnisumhverfi hefur einnig haft áhrif á rekstur félagsins auk þess sem tímabundnar lokanir og breytingar á lykilverslunum hafði neikvæð áhrif.

Gera ráð fyrir hækkandi rekstrarhagnaði

Framlegð félagsins nam 18,3 milljörðum króna samanborið við 20 milljarða króna á fyrra rekstarári. Framlegðarhlutfall hélst óbreytt í 24,8%. Afkoma fyrir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) nam 4,1 milljarði króna, samanborið við 6 milljarða króna árið áður. EBITDA hlutfall er 5,6%, samanborið við 7,5% árið áður.

Áætlun stjórnenda fyrir rekstrarárið 2018/19, gerir ráð fyrir að EBITDA samstæðunnar verði um 5 milljarðar króna. Fjárfestingar eru áætlaðar um 1,8 til 2 milljarðar króna. Stærstu verkefnin tengjast flutningi Bónusverslana í Mosfellsbæ og í Skeifunni.

Afskriftir ársins námu 1,1 milljarði króna samanborið við 1,2 milljörðum ári áður. Afskriftir hafa hækkað nokkuð síðastliðin tvö ár sem skýrist aðallega af lokun og breytingu verslana, auk aukinna fjárfestinga í fasteignum.

Heildareignir samstæðunnar í lok rekstrarársins námu 29,4 milljörðum króna. Eigið fé félagsins var 18 milljarðar króna í lok rekstrarársins og eiginfjárhlutfall 61,1%. Heildarskuldir samstæðunnar voru 11,4 milljarðar króna og þar af voru langtímaskuldir 2,9 milljarðar króna.