Hagnaður Haga nam rúmum 1,9 milljörðum króna á fyrri hluta rekstrarársins, þ.e. frá í mars í vor og fram til loka ágúst. Þetta er um 400 milljónum krónum meiri hagnaður en á sama tíma í fyrra en þá nam hann rúmum 1,5 milljörðum króna. Ástæða þess að afkoman batnar svo mjög á milli ára er aukin velta, lægra kostnaðarhlutfall, lægri afskriftir og lægri fjármagnsgjöld en áður. Framlegðarhlutfallið, þ.e. álagningin var óbreytt á milli ára.

Fram kemur í tilkynningu frá Högum að afkoman nú sé umfram áætlanir.

Þá segir í tilkynningunni að farið var yfir drög að uppgjöri félagsins á stjórnarfundi í dag. Uppgjörið verður svo birt 24. október næstkomandi.

Gengi hlutabréfa Haga hækkaði um 0,15% í Kauphöllinni í dag í viðskiptum upp á 13 milljónir króna.