Hagnaður Haga ehf. á síðasta rekstrarári nam 1.093 milljónum króna. Rekstrartekjur rekstrarársins námu 66,7 milljörðum króna. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4.384 milljónum króna. Ársreikningur félagsins hefur að geyma samstæðureikning félagsins og dótturfélaga þess og var samþykktur af stjórn og forstjóra félagsins þann 19. apríl sl.

Heildareignir samstæðunnar námu 21.830 milljónum í lok tímabilsins. Eigið fé nam 3.612 milljónum og eiginfjárhlutfall var 16,5%.

„Lánasamningur félagsins, sem gerður var í október 2009,  kveður á um gjalddaga í október 2011, með tveimur framlengingarheimildum til allt að 24 mánaða í senn. Samið hefur verið um framlengingu til október 2012, með frekari framlengingarheimildum eins og kveður á í samningnum,“ segir í tilkynningu félagsins. „Í samræmi við IFRS þá eru 11.481 millj. kr. færðar sem skammtímaskuld í uppgjörinu fyrir síðasta ár, þar sem samið var um framlengingu eftir lok uppgjörsdags.  Sú upphæð flokkast í dag meðal langtímaskulda þar sem samið hefur verið um framlengingu.“

Ný stjórn var kjörin á aðalfundi. Í henni sitja Árni Hauksson, formaður, Erna Gísladóttir, Guðbrandur Sigurðsson, Hallbjörn Karlsson og Kristín Friðgeirsdóttir. Árni, Hallbjörn og Kristín eru kosin ný í stjórn Haga í stað Péturs J Eiríkssonar, Steins Loga Björnssonar og Svönu Helen Björnsdóttur, sem voru í fráfarandi stjórn félagsins.

Fyrirtæki Haga á tímabilinu eru Bónus, Debenhams, Hagkaup, Ferskar kjötvörur, 10-11, Noron (Zara), Aðföng, Sólhöfn, Hýsing og Bananar. 10-11 er inni í rekstrarreikningi samstæðunnar fyrstu 6 mánuði rekstrarársins en er farið út úr efnahagsreikningi samstæðunnar, sbr. skiptingu félagsins 31. ágúst 2010.