Hagnaður Hampiðjunnar nam 15,1 milljónum evra á síðasta ári en það jafngildir um 2,3 milljörðum króna miðað við núverandi gengi krónunnar. Hagnaður félagsins jókst um 1,7 milljónir evra eða um 12,7% frá árinu 2019 þegar hann nam 13,4 milljónum evra. EBITDA félagsins hækkaði um úr 24,0 milljónum evra á árinu 2019 í 27,5 milljónir evra á síðasta ári.

Rekstrartekjur samstæðunnar voru ríflega 162 milljónir evra, eða um 25 milljarðar króna, á síðasta ári og voru nánast óbreyttar milli ára. Sé leiðrétt fyrir dótturfélögum sem komu inn í samstæðuna á árinu þá drógust tekjur saman um 6,8 milljónir evra, að því er segir í tilkynningu félagsins samhliða ársreikningi. Heimsfaraldurinn skýri þennan samdrátt að mestu leyti.

Miðað við gengi krónunnar gagnvart evru í lok árs 2020 þá eru heildareignir 38,5 milljarðar, skuldir 18,4 milljarðar og eigið fé 20,1 milljarður. Hlutfall eigin fjár, þegar 1,9 milljarða króna hlutdeild minnihluta er meðtalin, var í lok tímabilsins 52,3% af heildareignum samstæðunnar sem er sama hlutfall og í árslok 2019.

Starfsmenn Hampiðjunnar voru að meðaltali 1.159 á árinu og fjölgaði því um 2,9% úr 1.126  árið á undan.  Á síðasta ári störfuðu 76 á Íslandi sem er sami fjöldi og á árinu 2019 eða tæp 7% af heildinni. Fjölmennustu starfsstöðvarnar eru í Litháen en þar starfa nú 615 í tveim framleiðslufyrirtækjum samstæðunnar, Hampidjan Baltic og Vonin Lithuania, eða 53% af heildarstarfsmannafjölda Hampiðjunnar. Búið er að tryggja báðum þessum fyrirtækjum nægilegt landsvæði til stækkunar í nánustu framtíð því húsnæði beggja er nánast fullnýtt.

Stjórn Hampiðjunnar leggur til að greiddar verða 625 milljónir króna í arð vegna rekstrarársins 2020.

„Þrátt fyrir mikla óvissu vegna heimsfaraldursins reyndist árið 2020 gott ár fyrir samstæðu Hampiðjunnar.  Sala samstæðunnar í heild sinni stóð í stað milli ára en mjög mismunandi var hvernig salan þróaðist í einstökum löndum.  Vegna áhrifa Covid-19 dró mikið úr sölu frá Íslandi til Rússlands og sala á Írlandi minnkaði umtalsvert ásamt minni sölu hér á Íslandi.  Í Noregi veldur gengislækkun norsku krónunnar gagnvart evru lægri sölu sem því nemur í uppgjöri samstæðunnar,“ er haft eftir Hirti Erlendssyni, forstjóra Hampiðjunnar, í tilkynningu félagsins.

„Hins vegar jókst sala í Danmörku, Bandaríkjunum, Ástralíu, Færeyjum og á Kanarí.  Einnig skiluðu þau félög sem bættust í samstæðuna á árinu, Jackson Trawl og Jackson Offshore, töluverðri viðbót og vógu upp þá söluminnkun sem annars hefði orðið á milli ára.  Án þeirra hefði söluminnkun numið 4,2%.  Mikil sala var á fiskeldiskvíum á árinu og þá sérstaklega á stærri gerðum þeirra sem eru úr ofurefnum til Færeyja og Skotlands.  Sala á kvíum og þjónusta við fiskeldið hefur vaxið mikið undanfarin ár og er sá þáttur orðinn mikilvægur í starfsemi Hampiðjunnar.

Samlegðaráhrif vegna kaupa á fyrirtækjum undanfarin ár hefur skilað sér eins og áætlað var og EBITDA hlutfallið hækkaði úr 14,8% í 17,0%,“ er meðal þess sem Hjörtur segir í tilkynningunni.