Berkshire Hathaway, fjárfestingafélag Warren Buffett, hagnaðist um 30 milljarða dollara, andvirði 4.140 milljarða króna, á þriðja ársfjórðungi 2020 og jókst hagnaðurinn um 82% milli ára. Hagnaðaraukninguna má rekja til hærri ávöxtunar á eignasafn Berkshire, félagið á til að mynda stóran hlut í Apple og American Express.

Berkshire hefur aldrei keypt eigin bréf fyrir jafn háa fjárhæð og á þriðja ársfjórðungi 2020 eða fyrir níu milljarða dollara. Til samanburðar keypti félagið eigin bréf fyrir um 5,5 milljarða dollara á öðrum ársfjórðungi.

Samt sem áður er félagið með metfjárhæðir í lausafé, um 146 milljarða dollara. Haft er eftir viðmælenda Financial Times að kaup á eigin bréfum geti komið til móts við fjárfesta sem eru óánægðir með lækkandi rekstrarhagnað Berkshire.