Hagnaður HB Granda nam 1,9 milljónum evra á öðrum ársfjórðungi þessa árs eða því sem nemur um 220 milljónum íslenskra króna. Hagnaður félagsins á sama ársfjórðungi í fyrra nam 6,9 milljónum evra og dróst því saman um 72,4% milli ára.

Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins nam 5,6 milljónum evra samanborið við 12,4 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Rekstrartekjur námu 54,8 milljónum evra samanborið við 51,2 milljónir á sama tímabili í fyrra. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 6,5 milljónum evra á tímabilinu og dróst saman um 2 milljónir milli ára.

Heildareignir félagsins námu 490,1 milljón evra í lok júní. Eigið fé nam 238,3 milljónum og eiginfjárhlutfall var 48,6% en var 55,6% í lok árs 2016. Heildarskuldir félagsins í júnílok námu 251,8 milljónum evra.